Elsa Pálsdóttir hefur lokið keppni á HM öldunga í kraftlyftingum þar sem hún keppti á sínu fyrsta móti í búnaði. Óhætt er að segja að Elsa eigi framtíðina fyrir sér á þeim vettvangi því hún tryggði sér heimsmeistaratitilinn og setti heimsmet í réttstöðulyftu. Elsa sem keppti í -76 kg flokki öldunga 60-69 ára, lyfti mest 155 kg í hnébeygju sem er nýtt Íslandsmet og vann þar til gullverðlauna. Í bekkpressu vann Elsa til silfurverðlauna með lyftu upp á 80 kg og tvíbætti jafnframt sitt eigið Íslandsmet. Hápunktinum var svo náð í réttstöðulyftunni þegar hún fór upp með 175.5 kg og setti nýtt heimsmet í sínum aldursflokki og vann gull fyrir greinina. Samanlagt lyfti hún 410.5 kg og varð önnur stigahæsta konan með 67.78 IPF stig.
Þá keppti Hörður Birkisson í -74 kg flokki öldunga 60-69 ára. Hörður lyfti 170 kg í hnébeygju sem er jöfnun á gildandi Íslandsmeti. Í bekkpressu lyfti hann mest 120 kg og tvíbætti Íslandsmet Sæmundar Guðmundssonar og í réttstöðulyftu kláraði hann 180 kg en átti góða tilraun við 202.5 kg. Samanlagður árangur hans var 470 kg sem gaf honum fjórða sætið í flokknum.
Til hamingju Elsa og Hörður með árangurinn!