Skip to content

Elsa heimsmeistari fjórða árið í röð.

Elsa Pálsdóttir hefur lokið keppni á HM öldunga í klassískum kraftlyftingum þar sem hún varð heimsmeistari fjórða árið í röð. Elsa sem keppti í -76 kg flokki master 60-69 ára, lyfti mest 135 kg í hnébeygju og vann þar til gullverðlauna. Hún reyndi að bæta eigið heimsmet í hnébeygju í annarri og þriðju tilraun en það hafðist því miður ekki og bíður því betri tíma. Í bekkpressu vann Elsa til silfurverðlauna með lyftu upp á 65 kg og í réttstöðulyftu náði hún að lyfta 162.5 kg sem gaf henni gullið í þeirri grein. Samanlagt lyfti hún 362.5 kg og tryggði sér þar með heimsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum.

Þá keppti Hörður Birkisson í -74 kg flokki master 60-69 ára. Hörður lyfti mest 175 kg í hnébeygju, 95 kg í bekkpressu og 195 kg í réttstöðulyftu og var nálægt sínum besta árangri í öllum greinum. Samanlagður árangur hans var 465 kg sem gaf honum fjórða sætið í flokknum.

Til hamingju Elsa og Hörður með árangurinn!