Skip to content

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans.

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum. Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur, eins og svo mörg önnur starfsemi í landinu, verið borin uppi af sjálfboðaliðum sem eiga hrós skilið fyrir framlag sitt í þágu íþróttanna og sinna félaga.

Kraftlyftingar er ein þeirra íþróttagreina þar sem sjálfboðaliðar hafa sinnt mikilvægum hlutverkum og lagt mikið af mörkunum. Stjórnarstörf, skipulag móta, stangarvarsla, dómgæsla og þjálfun nýliða eru allt dæmi um verkefni sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér og vinna ókeypis í sínum frítíma. Það er ómetanlegt að hafa traust og gott fólk í kringum sig sem er tilbúið að axla ábyrgð og vinna að stórum sem smáum verkefnum svo íþróttafélögin og iðkendur þeirra geti stækkað og dafnað. Í dag er því kærkomið tækifæri til þess að þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf og dýrmætt framlag því dagurinn í dag er dagurinn þeirra.

Kærar þakkir allir sjálfboðaliðar!