Skip to content

Alexander Örn í fimmta sæti á EM í klassískum kraftlyftingum.

Tveir íslenskir keppendur stigu á pall í dag á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum en þeir kepptu báðir í -93 kg flokki.

Harrison Asena Kidaha sem keppti í B-grúppu var fyrri til að hefja keppni en hann hefur náð mjög góðum árangri í kraftlyftingum þrátt fyrir að hafa einungis æft greinina í eitt ár. Harrison sem var að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti lyfti seríunni 250 – 180 – 282.5 = 712.5 kg og hafnaði í 18. sæti á mótinu. Hnébeygjan gekk eitthvað brösuglega og fékk hann ekki gilda lyftu fyrr en í sinni síðustu tilraun en hann bætti sér það vel upp með persónulegum bætingum í bekkpressu, réttstöðulyftu og samanlögðum árangri.

Í næstu grúppu á eftir Harrison lyfti Alexander Örn Kárason sem var valinn kraftlyftingakarl ársins 2023. Alexander átti mjög gott mót og byrjaði á því að bæta eigið Íslandsmet í hnébeygju um 5 kg þegar hann lyfti 280 kg. Í bekkpressu endaði hann með 187.5 kg þrátt fyrir að hann hefði reyndar lyft 197.5 kg í þriðju tilraun og fengið lyftuna gilda hjá dómurum. Því miður sneri kviðdómur þeim úrskurði við en það er greinilegt að Íslandsmetið í bekkpressu mun verða bætt innan tíðar. Íslandsmetin héldu hins vegar áfram að hrannast upp hjá Alexander þegar hann bætti líka metið í réttstöðulyftu um 5 kg með 312.5 kg lyftu og metið í samanlögðum árangri um 2.5 kg. Samanlagt lyfti hann 780 kg og náði 5. sætinu í flokknum sem er mjög glæsilegur árangur á svo sterku móti.

Við óskum Harrison og Alexander til hamingju með frábæran árangur!

Á morgun er svo komið að Örnu Ösp Gunnarsdóttur sem byrjar keppni kl. 9:00 og Viktori Samúelssyni sem lyftir kl. 13:00.