Íslendingar áttu góðan keppnisdag á HM í bekkpressu en Fanney Hauksdóttir úr Gróttu og Viktor Ben Gestsson úr Breiðablik luku keppni fyrr í dag. Fanney gerði sér lítið fyrir og varð heimsmeistari unglinga í bekkpressu í -63 kg flokki og setti um leið nýtt heimsmet unglinga. Fanney byrjaði á 140 kg sem voru létt en smávægilegir hnökrar voru á lyftunni sem var dæmd ógild. Hún lét það ekki á sig fá og lyfti sömu þyngd í annarri tilraun og var þá komin með mikið forskot á aðra keppendur í flokknum. Í þriðju tilraun var svo beðið um 145,5 kg stöngina og upp fór þyngdin í glæsilegri lyftu og nýtt heimsmet unglinga komið á afrekaskrá Fanneyjar. Fanney lét sér þó ekki duga að vinna flokkinn og setja heimsmet því hún varð jafnframt stigahæst allra kvenna í unglingaflokki með 160,24 wilksstig. Sannarlega glæsilegur árangur.
Viktor sem keppir í +120 kg flokki, var að keppa á sínu fyrsta móti í unglingaflokki og bætti árangur sinn líka mikið. Hans besti árangur fyrir mótið var 255 kg en hann náði að bæta sig um 15 kg á mótinu. Viktor opnaði á 250 kg sem var létt og örugg lyfta og stökk því næst í 260 kg sem einnig var gild lyfta hjá honum og bæting því komin í hús. Í seinustu lyftu pressaði hann svo 270 kg og var um tíma í brons stöðu eða þar til Svíinn Calle Nilsson náði loks gildri lyftu í þriðju tilraun. Viktor hafnaði því í 4.sæti en sigurvegarinn var Nilsson með 295 kg.
Til hamingju með árangurinn Fanney og Viktor. Þið eruð íþróttinni til sóma.