Nú um helgina fór fram Vestur-Evrópumótið í kraftlyftingum. Mótið var haldið í Pornainen í Finnlandi og var þetta í sextánda sinn sem mótið er haldið. Á mótinu er keppt bæði í klassískum kraftlyftingum og í kraftlyftingum með búnaði. Ísland sendi 8 keppendur til leiks sem kepptu öll í klassískum kraftlyftingum.
Á föstudeginum mættu strákarnir í léttu flokkunum á pallinn. Í -74 kg flokki kepptu Brynjar Smári og Alexander Pétur. Þeir voru báðir að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti. Í hnébeygju jafnaði Alexander sinn besta árangur með 200 kg. Brynjar lyfti mest 220 kg. Í þriðju tilraun reyndi Brynjar við 230 kg sem hefði verið bæting á eigin Íslandsmeti í hnébeygju um 5 kg. Í bekkpressu voru þeir báðir rétt við sinn besta árangur. Alexander lyfti 125 kg og Brynjar lyfti 137.5 kg. Í réttstöðulyftu reyndi Alexander að slá eigið Íslandsmet um 10 kg með því að lyfta 265 kg. Sú þyngd fór ekki upp að þessu sinni. Brynjar lyfti 230 kg, en fyrir átti hann 235 kg. Alexander var með 577.5 kg í samanlögðum árangri og Brynjar var með samanlagðan árangur uppá 587.5 kg.
Næsti keppandi sem steig á stokk var Marcos. Hann keppir í -83 kg flokki. Þetta var jafnframt fyrsta alþjóðlega mótið sem Marcos mætir á. Í hnébeygju bætti Marcos sig um 7.5 kg þegar hann lyfti 230 kg. Í bekkpressu jafnaði hann sinn besta árangur sem eru 125 kg. Í réttstöðulyftu lyfti Marcos 270 kg, sem er 5 kg bæting. Samanlagður árangur Marcosar var 625 kg, 20 kg bæting í samanlögðum árangri.
Á laugardeginum mætti Elín fyrst á pallinn. Elín keppir í -69 kg flokki. Í hnébeygju bætti Elín eigið Íslandsmet í hnébeygju um 2.5 kg þegar hún lyfti 162.5 kg. Í bekkpressu lyfti Elín 105 kg, sem var bæting um 2.5 kg. Sú lyfta skilaði henni silfri í greininni. Í réttstöðulyftu tókst Elínu ekki að bæta sinn besta árangur og lyfti mest 140 kg. Frammistaða hennar þennan daginn skilaði henni 407.5 kg í samanlögðum árangri sem var jöfnun á því sem hún átti fyrir.
Næstu keppendur á pallinn voru Aron, Stefán, Hanna og Þorbjörg. Aron og Stefán keppa í +120 kg flokki. Stefán lyfti 270 kg í hnébeygju sem er 5 kg bæting á hans besta árangri. Aron beygði 300 kg sem skilaði honum bronsi í greininni. Bronsöldin hélt áfram hjá Aroni sem lyfti 200 kg í bekkpressu sem er jöfnun á hans besta árangri. Stefáni tókst að næla sér í gull í bekkpressu með 220 kg lyftu, sem er jafnframt nýtt Íslandsmet í greininni. Hann átti eldra metið sem var 211 kg. Í réttstöðulyftu togaði Aron 285 kg sem tryggði honum brons í greininni. Stefán lyfti 290 kg sem var persónuleg bæting um 10 kg og silfur í greininni. Aron endaði með 785 kg í samanlögðum árangri og brons fyrir þá tölu. Stefán endaði með 780 kg í samanlögðum árangri sem er bæting um 24 kg í samanlögðum árangri hjá honum. Þetta var jafnframt fyrsta mót Stefáns á alþjóðlegum vettvangi.
Hanna og Þorbjörg keppa báðar í +84 kg flokki. Í hnébeygjunni jafnaði Þorbjörg sinn besta árangur með 205 kg. Hanna lyfti 210 kg, sem voru 5 kg bæting. 210 kg lyfta Hönnu tryggði henni brons í greininni. Í bekkpressu lyfti Hanna 102.5 kg og Þorbjörg 105 kg, sem er jöfnun á hennar besta árangri. Þorbjörg fékk brons í bekkpressunni. Í réttstöðulyftu lyfti Þorbjörg187.5 og var aðeins frá sínu besta þar. Hanna lyfti 212.5 kg sem voru 2.5 kg bæting á hennar besta og silfur í greininni. Þorbjörg endaði með 497.5 kg í samanlögðum árangri og Hanna með 525 kg sem eru bæting um 15 kg í samanlögðum árangri. Hanna fékk bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur. Með samanlögðum árangri sínum náði Hanna lágmarki á Heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum á næsta ári.
Við óskum hópnum til hamingju með glæsilegan árangur og bætingar!





