Íslandsmeistaramótið í bekkpressu fer fram í íþróttamiðstöðinni Jaðarsbökkum á Akranesi laugardaginn 28.janúar nk. Keppni hefst kl. 12.00 í kvennaflokki og karlaflokkum 66 – 74 kg. Í karlaflokkum 93 – 120+ kg er áætlað að keppni hefjist kl. 15.00. Aðgangur er ókeypis fyrir áhorfendur.
Góð þátttaka er á mótinu, 11 konur og 36 karlar eru skráðir til leiks og er fjölmennt og tvísýnt í mörgum flokkum.
KEPPENDUR
Mótið er fyrsta mót í liðakeppni 2012 og þegar er ljóst að sú keppni verður hörð frá fyrsta degi. 10 félög senda menn í keppni og eru lið Breiðabliks, Gróttu og Massa fjölmennust. Blikar verða að teljast sigurstanglegir með öfluga sveit bæði í karla- og kvennaflokki, en Grótta teflir sínum körlum og ekki síður konum fram mjög taktískt og gætu skorað mörg stig. Massi hefur unnið tvö ár í röð en það má segja að “kvennmannsleysið” háir þeim og gæti komið í veg fyrir að þeir taki bikarinn í þriðja sinn, en enginn skal afskrifa suðurnesjamenn fyrirfram!
Fámennari liðin etja líka kappi sín á milli og verður gaman að sjá hvort Zetorar reynast sterkari en Heiðrúnarmenn.
Hvað sem því líður verða Massamenn heiðraðir á laugardaginn þegar þeir taka við bikarinn sem lið ársins 2011. Um leið fá kraftlyftingarmenn 2011 í karla- og kvennaflokki sínar viðurkenningar.
Við óskum öllum keppendum góðs gengis og hvetjum alla áhugamenn um kraftlyftingar að leggja leið sína í höllina til að hvetja sína menn og sjá hvernig eigi að taka alvöru bekkpressur.
Mótshaldari er Kraftlyftingafélag Akraness.