Drífa Ríkarðsdóttir og Friðbjörn Bragi Hlynsson luku í gær keppni á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum.
Drífa keppti í -57 kg flokki og lyfti seríunni 127.5 – 90 – 175 en bekkpressan var persónuleg bæting hjá henni og jöfnun á Íslandsmeti. Í réttstöðunni komst hún í hann krappan þegar hún fékk tvær fyrstu tilraunir sínar ógildar. Hún skipti þá úr súmó stíl yfir í hefðbunda réttstöðu og náði gildri lyftu í lokin. Samanlagt lyfti Drífa 392.5 kg og hafnaði í 11. sæti.
Friðbjörn sem keppir í -83 kg flokki byrjaði vel á mótinu og bætti eigið Íslandsmet í hnébeygju þegar hann lyfti 262.5 kg. Í bekkpressu kláraði hann svo 157.5 kg og í réttstöðulyftu fór hann upp með 280 kg. Samanlagður árangur hans endaði í 700 kg sem skilaði honum 15. sætinu.
Til hamingju Drífa og Friðbjörn með árangurinn!


