KRAFT bárust fjölmargar tilkynningar og ábendingar í kjölfar bikarmóts KRAFT sem fram fór í október 2023 vegna óíþróttamannslegrar og ofbeldisfullrar hegðunar tiltekinna þátttakenda á mótinu. Reyndist málið umfangsmikið og kallaði það á mikla vinnu við söfnun upplýsinga og að ná að fullu utan um atvik. Þegar atvik lágu nægilega skýr fyrir tók stjórn KRAFT ákvörðun um að leggja fram kæru til dómstóls ÍSÍ vegna málsins og var það gert í janúar 2024. Kærufrestur er vanalega sjö dagar frá því að atvik eiga sér stað en heimilt er að óska eftir undanþágu frá því í sérstökum tilvikum. KRAFT óskaði eftir undanþágu í þessu tilviki en dómstóll ÍSÍ hafnaði þeirri beiðni.
Stjórn KRAFT ákvað þá að taka málið fyrir á vettvangi stjórnar og var varnaraðilum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum í málinu. Að því loknu tók stjórn KRAFT málið til ákvörðunar samkvæmt lögum og reglugerðum KRAFT á fundi sem haldinn var 15. ágúst 2024.
Var niðurstaða stjórnar KRAFT að áminna bæri Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) vegna óíþróttamannslegrar framkomu keppanda og þjálfara á þeirra vegum í mótinu. Keppandi á vegum KFA var sömuleiðis áminntur fyrir ítrekaða óíþróttamannslega framkomu á mótinu. Þjálfari á vegum KFA, Grétar Skúli Gunnarsson, var úrskurðaður óhlutgengur í 12 mánuði frá 15. ágúst 2024 vegna ítrekaðrar óíþróttamannslegrar framkomu, bæði í orðum og ofbeldisfullri hegðun. Í því felst að hann sætir útilokun frá þátttöku í æfingum, keppni og sýningum innan KRAFT, þ.m.t. innan síns félags, ásamt því að vera sviptur rétti til að gegna trúnaðarstörfum innan kraftlyftingasambandsins, svo sem stjórnarstörfum, þjálfarastörfum eða öðru slíku innan KRAFT og síns félags.
Samkvæmt lögum ÍSÍ fara úrskurðir stjórna sérsambanda um óhlutgengi sjálfkrafa til dómstóls ÍSÍ til meðferðar. Dómstóll ÍSÍ staðfesti úrskurð stjórnar KRAFT um óhlutgengi í málinu 7. október sl. en taldi hæfilega tímalengd vera 8 mánuði frá 15. ágúst 2024. Heimilt er fyrir varnaraðila að áfrýja þeim úrskurði til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ.
Stjórn KRAFT telur mikilvægt að tekin sé skýr afstaða gegn ofbeldi og óíþróttamannslegri hegðun, enda á slíkt ekki heima í íþróttum.
Mál af þessu tagi eru því miður tímafrek, kostnaðarsöm og þung í vinnslu fyrir tiltölulega lítið sérsamband sem byggir að stórum hluta á sjálfboðavinnu. Stjórn KRAFT mun í framhaldinu yfirfara regluverk sambandsins og verklag í málum af þessu tagi með hliðsjón af þeim lærdóm sem draga má af þessu máli.
Úrskurði stjórnar má finna á heimasíðu KRAFT => SJÁ HÉR
Úrskurður Dómstóls ÍSÍ í málinu => SJÁ HÉR