Skúli Óskarsson, helsti brauðryðjandi kraftlyftinga á Íslandi, handhafi gullmerkis KRAFT og félagi í Heiðurshöll ÍSÍ, lést á Landsspítalanum sunnudaginn 9. júní.
Skúli fæddist á Fáskrúðsfirði þann 3. september árið 1948. Hann hóf að æfa kraftlyftingar á 7. áratugnum og keppti á sínu fyrsta kraftlyftingamóti árið 1970. Keppti eftir það á fjölda móta hérlendis og á alþjóðamótum. Skúli vann silfur í léttvigtarflokki á heimsmeistaramótinu árið 1978. Það ár var hann kosinn Íþróttamaður ársins, fyrstur kraftlyftingamanna. Árið 1980 setti hann heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 315,15 kg í 75 kg flokki. Það ár var hann kosinn Íþróttamaður ársins í annað sinn. Skúli vann tvenn bronsverðlaun á HM, þrenna NM titla, ófáa titla á innanlandsmótum og sló fjölda Íslandsmeta.
Árið 2016 hlaut Skúli gullmerki KRAFT og árið 2017 var hann gerður að félaga í Heiðurshöll ÍSÍ.
Skúli Óskarsson er sá Íslendingur sem kynnti kraftlyftingar fyrir mörgum landanum í fyrsta skipti. Íþróttin á honum því mikið að þakka. Nafn hans er og mun ávallt verða tengt íþróttinni órjúfanlegum böndum.
Kraftlyftingasamband Íslands vottar fjölskyldu og vinum Skúla heitins samúð sína.