Skip to content

Guðný Ásta með silfurverðlaun á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum.

Guðný Ásta Snorradóttir átti glæsilega innkomu á sínu fyrsta alþjóðamóti þegar hún tryggði sér silfurverðlaun á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum. Guðný sem keppti í +84 kg flokki M2 bætti sinn persónulega árangur í hnébeygju um 5 kg þegar hún lyfti 157.5 kg og vann til bronsverðlauna í greininni. Í bekkpressu var hún með seríuna 87.5 – 92.5 – 97.5 og tryggði sér þar gullverðlaun. Eftir tvær greinar var staðan sú að Guðný leiddi keppnina og var með 7.5 kg forskot á Barböru Claassen frá Hollandi sem var hennar sterkasti keppinautur. Í réttstöðunni lyfti Guðný svo mest 167.5 kg en fékk því miður ógilt á síðustu lyftuna sem hefði gert stöðu hennar sterkari. Hún má þó vel við una því hún var einungis hársbreidd frá gullinu en samanlagt endaði hún með 422.5 kg sem er 15 kg bæting hjá henni. Sigurvegari varð Barbara Claassen með 425 kg í samanlögðum árangri.

Þórunn Brynja Jónasdóttir sem keppti í -84 kg flokki M2 átti líka fínan dag á keppnispallinum. Í hnébeygju lyfti hún seríunni 120 – 127.5 – 132.5 og tvíbætti Íslandsmet Elsu Pálsdóttur í aldursflokki 50-59 ára. Hún sló heldur ekki slöku við í bekkpressunni þar sem hún þríbætti Íslandmetið og endaði þar með 85 kg. Í réttstöðulyftu lyfti hún mest 147.5 kg og því varð samanlagður árangur hennar 365 kg sem tryggði henni 7. sætið í flokknum. Sannkallað Íslandsmetaregn hjá Þórunni Brynju sem þríbætti einnig Íslandsmetið í samanlögðum árangri. Sigurvegari var Lapanda Mampikin frá Hollandi með 485.5 samanlagt.

Til hamingju með glæsilegan árangur!

Átökin halda áfram á morgun en þá keppir Sturla Ólafsson í -105 kg M2 og byrjar keppni kl. 12:30.