Skip to content

Tækifæri til fjáröflunar – aðstoð við Grindavík

Almannavarnir hafa haft samband við KRAFT til að óska eftir öflugu fólki við flutning verðmæta frá Grindavík. Fyrirkomulagið er þannig að greiddar eru 5.500 kr. á klukkustund fyrir hvern þann sem kemur að aðstoða og rennur peningurinn sem styrkur til íþróttafélags viðkomandi.

Fyrsta lota mun standa yfir frá 6. febrúar til 14. febrúar frá kl. 9:00 til 15:00 og hægt er að taka staka daga. Þannig er hægt að styðja við Grindvíkinga í þeirra baráttu við náttúruöflin að bjarga verðmætum og á sama tíma styðja sitt eigið íþróttafélag með fjáröflun.

KRAFT mun til að byrja með sjá um að halda um skráningu þátttakenda og koma upplýsingum til Almannavarna. Forsvarsmenn félaga eru beðnir að safna saman nöfnum þeirra sem bjóða sig fram, kennitölum og netföngum ásamt því hvaða daga þeir geta verið og koma því til KRAFT. Sendið upplýsingarnar vinsamlegast á kraft@kraft.is.