Skip to content

EM í klassískum kraftlyftingum hefst á morgun.


Evrópumeistaramótið í klassískum kraftlyftingum fer fram dagana 4.–9. desember og að þessu sinni er mótið haldið í Tartu, Eistlandi. Kraftlyftingasamband Íslands teflir fram öflugum hópi en fjórir keppendur munu stíga á pall og keppa fyrir Íslands hönd.

Friðbjörn Bragi Hlynsson keppir í -83 kg flokki en hann er að keppa í annað sinn á EM í opnum aldursflokki. Friðbjörn keppir þriðjudaginn 5. desember kl. 09:00 að íslenskum tíma.

Viktor Samúelsson í -105 kg flokki er þaulreyndur keppandi og hefur keppt á fjölmörgum alþjóðamótum. Viktor keppir fimmtudaginn 7. desember kl. 13:00.

Lucie Stefaniková er að keppa á sínu fyrsta Evrópumóti en hún keppti á HM 2022. Lucy sem keppir í -76 kg flokki stígur á pallinn föstudaginn 8. desember kl. 9:00.

Kristín Þórhallsdóttir keppir í -84 kg flokki og hefur átt góðu gengi að fagna síðastliðin ár á alþjóðamótum. Hún vann til silfurverðlauna á EM 2022 og varð Evrópumeistari árið 2021. Kristín keppir laugardaginn 9. desember kl. 08:00.

Í fylgd með keppendum verða Auðunn Jónsson yfirþjálfari og Lára Bogey Finnbogadóttir aðstoðarþjálfari. Þórunn Jónasdóttir alþjóðadómari verður einnig með í för og mun dæma á mótinu.

Bein útsending verður frá mótinu. Sjá hér.

Áfram Ísland!