Sæmundur Guðmundsson hefur lokið keppni á HM öldunga í kraftlyftingum með útbúnaði, þar sem hann keppti í -74 kg flokki öldunga 70-79 ára. Í hnébeygju lyfti Sæmundur 150 kg sem er jöfnun á Íslandsmetinu hans og hreppti silfurverðlaun í greininni. Í bekkpressu hlaut hann einnig silfur með 100 kg lyftu og í réttstöðulyftu nældi hann sér í enn eitt silfrið þegar hann fór upp með 180 kg sem er 10 kg bæting á hans eigin Íslandsmeti. Samanlagt lyfti hann 430 kg sem tryggði honum silfrið í flokknum og er jafnframt 10 kg bæting á Íslandsmetinu. Sigurvegari í flokknum var John Terragni frá Danmörku en Tsegmed Byambaa frá Mongólíu hafnaði í þriðja sæti. Til hamingju Sæmundur með glæsilegan árangur!