Það var hart barist í -74 kg flokki öldunga 60-69 ára og til að byrja með var keppnin um heimsmeistaratitilinn hnífjöfn milli Harðar og Bat-Erdene Shagdarsuren frá Mongólíu. Hörður leiddi keppnina eftir hnébeygjuna þar sem hann vann til gullverðlauna þegar hann lyfti 175 kg og bætti þar eigið Íslandsmet um 5 kg. Í bekkpressu lyfti hann 97.5 kg en þá tók keppinautur hans Bat-Erdene forystuna en var þó einungis með 2.5 kg forskot á Hörð. Úrslitin réðust svo endanlega í réttstöðunni þar sem Hörður hlaut gullverðlaun fyrir 195 kg lyftu sem einnig var nýtt Íslandsmet og tryggði sér þar með heimsmeistaratitilinn í flokknum. Samanlagður árangur Harðar endaði í 467.5 kg sem er bæting á Íslandsmetinu hans um heil 12.5 kg. Til hamingju Hörður með glæsilegan árangur!