Lokadagur HM í kraftlyftingum í Viborg var góður dagur fyrir Ísland.
Sóley Margrét Jónsdóttir keppti í +84kg flokki og hreppti silfurverðlaun samanlagt með 645kg.
Sóley byrjaði glæsilega með 275kg í hnébeygju sem færði henni gull í greininni, hélt áfram með 190 kg í bekkpressu sem þýddi bronsverðlaun og nýtt íslandsmet. Í réttstöðu lyfti hún 180kg og reyndi í þriðju tilraun við 220kg með það fyrir augum að ná gullinu, en það tókst ekki.
Við óskum henni innilega til hamingju með íslandsmet, tvenn greinaverðlaun og silfurverðlaun samanlagt!
Guðfinnur Snær Magnússon keppti í +120kg flokki og náði þar fjórða sæti með 380 – 315 – 300 = 995 kg.
Bekkpressan, 315 kg, er 15kg persónuleg bæting og dugði honum til bronsverðlauna í greininni.
Við óskum honum innilega til hamingju með bætingu og bronsverðlaun í bekkpressu á HM.
Alex Cambray Orrason keppti á miðvikudag og átti ekki erindi sem erfiði. Hann náði ekki gildri lyftu í hnébeygju og féll því miður úr keppni á sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Við eigum von á að hann komi sterkur tilbaka.
Kraftlyftingamót SOI og IPF var haldið í tengslum við HM og tóku þau María Sigurjónsdóttir og Jón Ingi Guðfinnsson þátt fyrir Íslands hönd. Þau stóðu sig með miklum sóma á stóra sviðinu.