Íslensku keppendurnir á HM gerðu góða hluti í dag. Mjög sannfærandi frammístaða færði þeim ein bronsverðlaun, eitt evrópumet, átta íslandsmet og ellefu persónulegar bætingar. Ekki amalegt dagsverk það!
Birgit Rós Becker tókst áætlunarverk sitt og bætti sig í bekk, réttstöðu og samanlögðu og setti í leiðinni þrjú íslandsmet, í réttstöðu, réttstöðu single lift og samanlögðu.
Birgit keppti í -76kg flokki og tók seríuna 180-92,5-190=462,5 sem er 5kg bæting á hennar eigin íslandsmeti og gaf henni 13.sætið í flokknum.
Lucie Stefanikova tókst sömuleiðis að vekja athygli á sér. Hún gerði sér lítið fyrir á sínu fyrsta alþjóðamóti og setti evrópumet í hnébeygju og bætti árangur sinn á bekknum og í samanlögðu um heil 20kg! Hún lyfti 207,5-100-205=512,5kg í -76kg flokki. Evrópumetið var slegið síðar, en hún hreppti bronsverðlaunin í greininni og 8.sætið samanlagt.
Lucie er tékkneskur ríkisborgari búsett á Íslandi og keppir fyrir íslenska landsliðið. Umsókn hennar um ríkisborgararétt fær vonandi skjóta afgreiðslu.
Það var líka búið að kveikja á Alexander í morgun! Hann átti frábæran dag, lyfti 272,5-190-300=762,5kg í -93kg flokki á sínu fyrsta HM í opnum flokki. Með þessu nær Alexander 100,2 GL stigum og er þriðji íslendingurinn til að ná þriggja stafa tölu á eftir Júlíani og Kristínu.
Hnébeygja og réttstaðan og réttstaðan single lift eru ný íslandsmet og sömuleiðis samanlagður árangurinn , sem er bæting um hvorki meira né minna en 25kg. Hann endaði í 17.sæti
Við óskum þeim til hamingju með frábæra frammístöðu í dag.