Matthildur Óskarsdóttir keppti í dag á HM í klassískum kraftlyftingum sem fer fram í Calgary, Kanada. Matthildur hefur þrátt fyrir ungan aldur verið að keppa í kraftlyftingum síðan 2014 en þetta er í fyrsta skiptið sem hún keppir í unglingaflokki á alþjóðamóti. Matthildur keppir í -72kg flokki. Hún mætti sterk til leiks og lyfti 140kg í hnébeygjunni sem er nýtt íslands með í unglingaflokki. Í bekkpressunni lá því best við að bæta líka íslandsmet og lyfti hún 95kg sem gaf henni bronsið í bekkpressunni. Þetta var því miður ekki hennar dagur í réttstöðulyftunni. 142,5kg fóru upp en gripið brást í seinni lyftum. Þetta gaf henni 377,5kg í samanlögðu sem er jöfnun á hennar besta árangri. 2 íslandsmet og mun Matthildur án vafa taka þau fleiri í framtíðinni, þetta er rétt að byrja.
Kraftlyftingasamband Íslands óskar henni innilega til hamingju með árangurinn!
Næsti íslenski keppandinn sem lyftir á HM er Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir og keppir hún á fimmtudaginn klukkan 15:00 á íslenskum tíma. Ragnheiður er með hæstu wilks stig sem íslensk kona hefur tekið í klassískum kraftlyftingum og því verður gaman að fylgjast með henni. KRAFT óskar henni góðs gengis á mótinu og hvetur sem flesta til að horfa á.