Skip to content

Viktor hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum

Viktor Samúelsson keppti í dag í 120 kg flokki á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem stendur yfir í Pilsen í Tékklandi. Viktori tókst ekki að fá gilda hnébeygju og féll því úr keppni í samanlögðu, en hann náði fjórða sæti í bekkpressu með 295 kg.

Í hnébeygju reyndi Viktor þrívegis við 375 kg. Í fyrstu náði hann ekki dýpt, í annarri missti hann jafnvægið og í þeirri þriðju náði hann heldur ekki dýpt. Viktor var þar með fallinn úr keppni í samanlögðu. Hann hélt þó áfram keppni í bekkpressu og réttstöðulyftu. Í bekkpressu lyfti hann 295 kg í fyrstu tilraun. Honum mistókst svo naumlega að lyfta 312,5 kg í annarri og þriðju tilraun, en sú þyngd hefði tryggt honum silfurverðlaun í bekkpressu. Í réttstöðu lyfti hann örugglega 305 kg í fyrstu tilraun, fékk 315 kg ógilda í annarri tilraun vegna tæknigalla en tókst svo að lyfta sömu þyngd í þriðju tilraun.

Á morgun keppir svo Júlían J. K. Jóhannsson í +120 kg flokki. Keppni hefst kl. 10 (flýtt um klst. frá upphaflegu tímaskipulagi) og verður í beinni útsendingu á Goodlift-vefnum.