Skip to content

Byrjendamót_úrslit

Ekki var laust við að taugaspenna og prófkvíði gerði vart við sig í æfingaraðstöðu Massa í dag þegar byrjendamót og dómarapróf hófst kl. 11.00. Bæði þátttakendur og prófkandídatar unnu samt fljótlega bug á óörygginu og gekk mótið hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir nokkur þrengsli.
Hulda Waage, Breiðablik, hélt uppi heiðri kvenna á mótinu. Hún hefur tekið miklum framförum undanfarið og lék sér að 140 kg í réttstöðulyftu. Félagi hennar úr Breiðablik, Ari Elberg Jónsson, bætti sig í beygjum, en byrjaði full bjartsýnn í bekknum og fékk ekki gilda lyftu þar.
Fjórir drengir úr Massa sýndu ánægjulegar framfarir og er ljóst að Íslandsmet drengja eru í mikilli hættu þegar þeir lyfta næst á fullgildu móti. Þeir hafa æft stíft undanfarið undir stjórn Sturlu Ólafssonar og eru á leið til Noregs í júni til að taka þátt í unglingamóti. Þeir eru augljóslega ákveðnir í að verða sér ekki til skammar þar!
Garðbæingar eru búnir að staðsetja sig á litakortinu og mættu með þrjá menn í keppni og einn í dómaraprófið. Þeir voru að lyfta á sínu fyrsta móti og ekki var annað að sjá en að þeim hafi aukist kjarkur og öryggi með hverri lyftunni. Nú er bara að stefna markvisst að næstu keppni.
Ármann sendi Pál Matthíasson á mótið og kláraði hann fínar lyftur og það sama gerði Þórarinn Jónmundsson frá Zetorum. Vonandi hafa þeir komist á bragðið og láta ekki staðar numið hér heldur stefna á næsta mót.
Frá Selfossi mætti Daníel Geir Einarsson. Hann hefur töluverða keppnisreynslu en hnébeygjan hefur verið akkilesarhæll hans á undanförnum mótum. Í dag virtist hann ætla að falla í sömu gryfju, en kláraði beygju í síðustu tilraun og varð stigahæstur á mótinu. Sterkur strákur sem á míkið inni með bættri tækni.

Að loknu móti fengu allir þátttakendur viðurkenningarbikar og kökuveislu í boði Massa.
Kraftlyftingarsambandið þakkar mótshaldara fyrir vel skipulagt mót.

Heildarúrslit: byr2011

Leave a Reply