Skip to content

Helgi Hauksson sæmdur gullmerki KRAFT

Borghildur Erlingsdóttir sæmdi Helga Hauksson gullmerki KRAFT

Helgi Hauksson, alþjóðadómari, var á kraftlyftingaþingi 26. febrúar sl. sæmdur gullmerki KRAFT með kransi. Fráfarandi formaður sambandsins, Borghildur Erlingsdóttir, rifjaði upp óeigingjarnt starf hans í þágu íþróttarinnar og sæmdi hann gullmerkinu fyrir hönd stjórnar. Var því fagnað af fundarmönnum með lófaklappi. Að því loknu þakkaði Helgi fyrir sig og hélt stutta ræðu þar sem hann fór yfir feril sinn í íþróttum og starfi innan íþróttarinnar.

Helgi hefur í áraraðir starfað að eflingu kraftlyftingaíþróttarinnar, bæði fyrir og eftir að stofnað var sérsamband um íþróttina innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hann hefur verið í fararbroddi við að viðhalda lögum og reglum og haldið uppi háum staðli við dómgæslu.

Frá stofnun Kraftlyftingasambandsins sem sérsambands innan ÍSÍ hefur Helgi setið sem formaður dómaranefndar og sem slíkur lagt nauðsynlegan grundvöll undir starfsemi sambandsins. Hann hefur að auki setið í landsliðsnefnd og reynst dýrmætur ráðgjafi í snúnum málum.

Dómaraferill Helga hófst árið 1998, en það ár hlaut hann fyrst dómararéttindi á Íslandi. Hann naut fljótt virðingar sem góður dómari, strangur og sanngjarn. Árið 2004 stóðst hann svo próf til 2. stigs réttinda sem alþjóðadómari hjá Alþjóða kraftlyftingasambandinu (IPF Category II). Hann bætti svo um betur árið 2012 og stóðst próf til æðstu réttinda sem alþjóðadómari (IPF Category I). Frá því að Helgi hlaut alþjóðadómararéttindi hefur hann dæmt á ótal mótum, setið í kviðdómum og notið mikillar virðingar sem dómari á alþjóðavísu.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og margt óupptalið, en það von stjórnarinnar að heiðursmerkið verði Helga hvatning til að halda sem lengst áfram sínu óeigingjarna og dýrmæta starfi í þágu kraftlyftinga innan lands sem utan.