Íslandsmótinu í réttstöðu lauk í gær en mótið var í umsjá kraftlyftingadeildar UMF Harðar og fór fram á Patreksfirði. Nokkur Íslandsmet voru slegin, öll í kvennaflokkum. Nefna má glæsilegt íslandsmet Arnhildar Önnu Árnadóttur sem keppir fyrir Gróttu, en hún lyfti 200 kg í 72 kg flokki. Þess má geta að einungis tvær konur á Íslandi hafa náð að lyfta þessari þyngd. Sóley Jónsdóttir úr KFA setti íslandsmet unglinga 14-18 og 18-23 ára, með 180 kg lyftu í +84 kg flokki og bætti þar með eldra metið um heil 19 kg. Þá settu Sigríður Dagmar Agnarsdóttir og Sigþrúður Erla Arnarsdóttir íslandsmet í öldungaflokkum. Stigahæsta konan var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Gróttu sem var reyndar stigahæst allra keppenda en hún lyfti 170 kg og fékk fyrir það 200,6 Wilksstig. Stigahæstur í karlaflokki var Ingvi Örn Friðriksson úr KFA en hann fór upp með 287,5 kg sem gáfu honum 173,9 Wilksstig. Í liðakeppninni varð það svo Grótta sem átti stigahæstu liðin, bæði í karla- og kvennaflokki.
Nánari úrslit.