Heimsmeistaramóti unglinga, sem haldið er í Szcyrk í Póllandi, lauk í dag með keppni í 120 kg og +120 kg flokkum karla í U23. Íslensku keppendurnir þrír, Júlían J.K. Jóhannsson, Viktor Samúelsson og Þorbergur Guðmundsson áttu allir góðu gengi að fagna. Allir náðu þeir verðlaunasætum; Viktor með brons í -120 kg fl., Þorbergur með brons í +120 kg fl. og Júlían með gull og heimsmeistaratitilinn í +120 kg!
Júlían J.K. Jóhannsson mætti til Póllands sem ríkjandi heimsmeistari í +120 kg flokki. Allt frá fyrstu lyftu var hann með örugga forystu. Hann fór létt með 375 kg opnunarlyftuna, fékk aðra tilraun með 400 kg ógilda á dýpt, en þá þyngd kláraði hann örugglega í þriðju tilraun og sló þar með eigið Íslandsmet í U23. Í bekkpressu fór Júlían auðveldlega upp með 290 kg í fyrstu, 300 kg í annarri og 310 kg í þriðju tilraun, sem er 20 kg bæting á Íslandsmetinu í opnum flokki. Í réttstöðunni flugu 332,5 kg upp í fyrstu tilraun, í annarri tilraun reyndi hann svo við 5 kg bætingu á Íslandsmetinu í opnum flokki með 370 kg sem runnu úr greipum hans eftir létta lyftu. Þyngdin fór þó einnig örugglega upp í þriðju tilraun, hélt þá greipin og stóð því Júlían uppi með 1080 kg í samanlögðu. Sú þyngd er 30 kg bæting á fjögurra ára gömlu Íslandsmeti Auðuns Jónssonar. Júlían hlaut gullverðlaun í öllum þremur greinum, er heimsmeistari í yfirþungavigt unglinga annað árið í röð! Auk heimsmeistaratitilsins í yfirþungavigtinni varð hann í þriðja sæti á stigum óháð þyngdarflokkum.
Til hamingju Júlían!