Íslensku strákarnir hafa nú lokið keppni á Heimsmeistaramóti unglinga í bekkpressu. Viktor Samúelsson (1993) og Viktor Ben Gestsson (1996) áttu báðir góðu gengi að fagna og unnu sér annars vegar inn silfurverðlaun og hins vegar bronsverðlaun.
Viktor Samúelsson, sem keppti í -120 kg fl., fékk opnunuarlyftuna með 285 kg ógilda vegna tæknivillu. Í annarri tilraun lyfti hann öruggum 290 kg. Stórt stökk var tekið á milli annarrar og þriðju tilraunar, en þá reyndi hann við 317,5 kg sem hefði mögulega getað skilað honum heimsmeistaratitlinum. Viktor Samúelsson hafnaði í 2. sæti á eftir Kevin Jaeger frá Þýskalandi, sem sigraði með 343,5 kg (heimsmet í opnum flokki).
Viktor Ben er fæddur 1996 og var lang yngsti keppandinn í +120 kg fl. Líkt og Viktor Samúelsson þá átti Viktor Ben í erfiðleikum með opnunarlyftu sína, en hann klikkaði naumlega á 295 kg (Íslandsmet í opnum flokki). Sú þyngd fór svo örugglega upp í annarri tilraun, og var hann þá kominn í harða baráttu um 2. sætið. Bandaríkjamaðurinn John Caruso jafnaði Viktor í sinni þriðju tilraun, til að freista þess að sigra Viktor á líkamsþyngd. Til að landa silfrinu þurfti Viktor að lyfta 297,5 kg, sem reyndist of þungt í dag. Viktor átti best 270 kg og var því bæta sinn persónulega árangur um heil 25 kg!
Til hamingju strákar með frábæran árangur!
Seinna í dag keppir Fanney Hauksdóttir svo í opnum flokki. Keppni hefst kl. 13:00 og má nálgast beina útsendingu á http://goodlift.info/live1/onlineside.html