Kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson hefur verið útnefndur Íþróttamaður Ármanns árið 2015. Júlían á langan afreksferil að baki þó hann sé ungur að árum. Hann hóf að stunda lyftingar að kappi haustið 2008 aðeins 15 ára gamall.
Hann keppti í +120kg flokki á Evrópumeistaramóti unglinga í Ungverjalandi. Þar sigraði hann í bekkpressu á nýju íslandsmeti 290kg (single lift) og í réttstöðulyftu.
Í maí keppti hann svo á Íslandsmótinu í kraftlyftinum og sigraði þar í +120 kg flokki með 970kg.
Í ágúst átti hann sinn stærsta dag á ferlinum á heimsmeistarmóti unglinga í Prag í Tékklandi þar sem hann varð heimsmeistari í +120 kg flokki. Þar lyfti hann 375kg í hnébeygju, 285kg í bekkpressu og 352,5kg í réttstöðulyftu samanlagt gerir það litlar 1012,5kg. Bekkpressan er nýtt íslandsmet í opnum flokki. Þetta var jafnfram í fyrsta sinn sem Júlían lyfti yfir tonni.
Júlían er í 7 sæti á heimslista í 120+ kg flokk í kraftlyftingum sem er frábær árangur miðað við aldur.
Um þessar mundir stendur yfir vali á afreksmönnum ársins hjá flestum félögum og samböndum. Það er alltaf ánægjulegt þegar kraftlyftingamenn vinna afrek sem vekja athygli út fyrir okkar raða og eru íþróttinni til jafn mikils sóma og Júlían er. Kraftlyftingasamband Íslands óskar Júlíani til hamingju með þennan verðskuldaða heiður.