Kristín Þórhallsdóttir ruddist í dag inn á stóra sviðið í kraftlyftingum með látum og vann til bronsverðlauna á sínu fyrsta stórmóti, HM í Halmstad.
Kristín keppti í -84 kg flokki og var skráð inn með þriðja besta árangur. Hún stóð undir þeim væntingum og var ekki nema 5 kg frá silfrinu þegar upp var staðið.
Hún lyfti seríuna 217,5 – 112,5 – 222,5 = 552,5 kg. Hnébeygjan gaf henni bronsverðlaun í greininni og allt voru þetta ný og glæsileg íslandsmet og persónuleg bæting um 12,5 kg.
Kristín jafnaði auk þess Evrópumetinu í beygju, 217,5 kg, sem keppinautur hennar setti einni mínútu áður, en sú fær skráð metið sem fyrst tekur það.
Árangur Kristínar er eftirtektarverður, ekki síst í ljósi þess hversu stuttur ferill hennar er, en þetta mun vera fjórða besta tótal á HM í flokknum frá upphafi. Kristín er rétt að byrja, hún á meira inni og er nafn sem keppinautarnir eru farnir að skrifa hjá sér.
Við óskum henni innilega til hamingju með frábæra uppskeru á mikilli vinnu!