Skip to content

HM framundan

  • by

Heimsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum er framundan. Það fer fram í Sun City í Suður Afríku dagana 6.-11.júní. Þetta verður fjölmennt og sterkt mót og stefnir í gríðarlega baráttu í mörgum flokkum.

Ísland sendir öflugt og samstillt lið, að þessu sinni fara þrír karlar og fjórar konur. Míkil eftirvænting og tilhlökkun er í hópnum og allir eru staðráðnir í að njóta og grípa tækifærin sem gefast og styðja hvert annað til dáða.

Fremst í flokki fer evrópumeistarinn Kristín Þórhallsdóttir. Hún keppir í -84kg flokki þar sem hún er önnur á heimslista.
Hennar helsta markmið er að fylgja eftir góðum árangri síðasta árs, þar sem hún hlaut brons á HM og gull á EM Æfingar hafa gengið vel undanfarið og Kristín ætlar sér að vera í baráttunni um verðlaunin. Hún á evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu í flokknum, svo bætingar gæti þýtt ný met

Arna Ösp Gunnarsdóttir keppir í -63kg flokki. Arna er íslandsmeistari í flokknum og margfaldur íslandsmethafi.
Þetta er annað HM sem hún fer á, en hún hreppti 10.sætið á HM í fyrra. Í ár er hún skráð inn sem nr 14 í mjög sterkum flokki.
Arna segist hlakka míkið til að keppa aftur á stóra sviðinu meðal fremstu íþrottakvenna heims og stefnir á bætingar og ný íslandsmet.

Lucie Stefanikova, bikarmeistari kvenna 2021, keppir nú í fyrsta sinn með landsliði Íslands. Hún keppir í -76kg flokki og er skráð inn með 10.besta árangur.

Birgit Rós Becker keppir í -76kg á sínu fjórða heimsmeistaramóti.
Eftir frekar erfitt keppnisár í fyrra er markmið hennar fyrst og fremst að klára mótið með sóma og geta gengið sátt frá borði. Birgit hefur lagt inn mikla vinnu í undirbúningi og vonast til að geta tekið út góðar bætingar og sett ný íslandsmet.

Friðbjörn Bragi Hlynsson keppir í -83kg flokki. Hann er ríkjandi bikarmeistari og margfaldur íslandsmethafi í flokknum. Friðbjörn lenti í 16.sæti á sínu fyrsta HM í fyrra en er nú skráður inn með 17. besta árangur.
Hann er, eins og hinir, mjög spenntur að fá þetta tækifæri til að bæta sig og taka út fyrir innlögn af “strangheiðarlegri vinnu”, eins og hann orðar það.

Alexander Örn Kárason er orðinn árinu eldri og keppir nú í fyrsta sinn í opnum flokki, í -93kg. Hann hefur þegar eignað sér flest íslandsmetin í opnum flokki og er stöðugt að bæta sig. Þetta mót er nýr upphafspunktur fyrir Alexander sem hefur langtímamarkmiðin í huga. Mótið verður fyrst og fremst innlegg í reynslubankann, en það má alltaf búast við metatilraunum, hörku frammístöðu og hrikalegum anda þegar Alexander er annars vegar.

Viktor Samúelsson, kraftlyftingamaður ársins í fyrra, er reynsluboltinn i hópnum. Viktor á langan keppnisferil að baki, en keppir nú í annað sinn á HM í klassískum kraftlyftingum. Hann er skráður inn nr 10 í röðinni í gríðarlega sterkum -105kg flokki.
Undirbúningur hefur gengið vel hjá Viktori og planið er að bæta nokkrum kílóum á íslandsmetin í hverri grein og halda áfram að mjaka sér hægt og rólega upp listann.
“Ég get bara stjórnađ því sem ég geri,” segir Viktor, “en ef hlutnirnir ganga mér í hag í bekkpressunni gæti ég vel reynt viđ verđlaun þar.”
Viktor átti frábært ár í fyrra og náði 6.sætinu bæði á HM og EM og er til alls líklegur.

Aðstoðarmenn eru Auðunn Jónsson, Lára Finnbogadóttir og Hinrik Pálsson.
Aron Ingi Gautason dæmir á mótinu.
Hinrik og Aron sitja jafnframt ársþing IPF sem er háð áður en keppnin hefst.

Friðbjörn og Arna keppa miðvikudaginn 8.júni
Alexander, Birgit og Lucie keppa fimmtudaginn 9.júni
Viktor keppir föstudaginn 10.júni og Kristín laugardaginn 11.júni.
Sýnt verður frá mótinu á youtuberás IPF