Skip to content

Úrslit þriðja keppnisdags á EM öldunga í klassískum kraftlyftingum – M3 og M2

  • by

Á þriðja degi Evrópumóts öldunga í klassískum kraftlyftingum kepptu tveir Íslendingar.

Jens Elís Kristinsson keppti í M3 (60-69 ára), -105 kg. Þetta er fyrsta alþjóða mótið sem Jens keppir á. Jens átti góðan dag á pallinum. Hann tók 150 kg í hnébeygju og bætti sig í bekkpressu þar sem hann lyfti 107,5 kg. Í réttstöðulyftu tók hann 200 kg og lauk keppni með samanlagðan árangur 457,5 kg. Jens hafnaði í 6. sæti í sínum flokki.

Sigríður Andersen keppti í M2 (50-59 ára), -69 kg. Þetta var einnig fyrsta alþjóðamót Sigríðar. Í hnébeygju lyfti hún mest 107,5 kg sem er persónuleg bæting um 7,5 kg. Sigríður tók einnig persónulega bætingu þegar hún lyfti 62,5kg í bekkpressu  Í réttstöðulyftu jafnaði hún sinn besta árangur með 110 kg. Samanlagður árangur var 280 kg sem er persónuleg bæting um 15 kg. Sigríður hafnaði í 9. sæti í sínum flokki.

KRAFT óskar Jens og Sigríði innilega til hamingju!