Á sjötta degi Evrópumóts öldunga í klassískum kraftlyftingum kepptu tveir Íslendingar. Þær stöllur, Hrefna Sætran og Ragnheiður Sigurðardóttir kepptu báðar í M1 (40-49 ára), -69 kg.
Hrefna var fyrst á pallinn, Hún fékk opnunarbeygju ógilda en tók hana örugglega í annarri lyftu. Endaði með persónulega bætingu í þriðju lyftu með 117,5 kg. Hrefna opnaði í bekkpressu með 60 kg en náði því miður ekki að klára seinni tvær. Í réttstöðulyftu opnaði Hrefna með 115 kg á stönginni og í annarri lyfti hún örugglega 122,5 kg. Í þriðju lyftu reyndi hún við persónulega bætingu með 127,5 kg sem vildi ekki upp í þetta skiptið. Hrefna jafnaði sinn besta árangur með 300 kg í samanlögðu en hún keppti nú í fyrsta skipti í léttari þyngdarflokki. Hrefna endaði í 10. sæti.
Ragnheiður lenti líka í að fá fyrstu hnébeygju ógilda en tók þyngdina, 140 kg, örugglega í annarri lyftu sem var nýtt Íslandsmet. Í þriðju hnébeygju bætti Ragnheiður Íslandsmetið með 145 kg lyftu. Ragnheiður opnaði með 85 kg í bekkpressu, náði ekki að klára lyftu tvö en tók síðan 87,5 kg örugglega í þriðju lyftu. Það tryggði henni brons í bekkpressu. Í réttstöðulyftu átti Ragnheiður frábæra þrennu. Í fyrstu lyftu flugu 155 kg upp sem var nýtt Íslandsmet í réttstöðulyftu og í samanlögðu. Í annarri lyftu fóru 162,5 kg örugglega upp og þar með bæting á Íslandsmetum. Ragnheiður kláraði keppnina örugglega með 170 kg á stönginni og enn ein bæting á Íslandsmetum í réttstöðulyftu og í samanlögðu með 402,5 kg. Ragnheiður endaði í 7. sæti.
KRAFT óskar Hrefnu og Ragnheiði innilega til hamingju með frábæran árangur!



