Áttundi og síðasti dagur EM Master 2025. Baldur Freyr Óskarsson úr Ármanni keppti í dag á sínu fyrsta alþjóðlega móti og átti mjög góðan dag.
Í hnébeygju opnaði hann á 220 kg, tók svo 230 kg og setti Íslandsmet, í þriðju lyftu bætti hann um enn betur og lyfti 237.5 kg og bætti aftur Íslandsmetið í hnébeygju. Baldur bætti fyrra met um 17.5 kg.
Bekkpressan var aðeins að þvælast fyrir Baldri en hann opnaði öruggt á 150 kg en því miður fóru hinar tvær lyfturnar ekki upp.
Í réttstöðulyftu opnaði Baldur öruggt á 220 kg. Í annarri lyftu tók hann 230 kg og bætti með þeirri lyftu Íslandsmetið í samanlögðu. Í þriðju lyftu togaði hann örugglega 245 kg upp og bætti samanlagða metið með þeirri lyftu um heil 20 kg. Samanlagt 632.5 kg og Íslandsmet í samanlögðu. Baldur hafnaði í 5. sæti í sínum flokki.
Kraftlyftingasamband Íslands óskar Baldri hjartanlega til hamingju með öll Íslandsmetin og frábært fyrsta alþjóðlega mót.

