Á fyrsta degi Evrópumóts öldunga í klassískum kraftlyftingum, sunnudaginn 9. febrúar, kepptu fjórir íslenskir keppendur.
Fyrstur á pall var Jóhann Frímann Traustason sem keppti í M4 (70 ára og eldri), -66 kg. Hann átti frábæran dag, sló samtals 20 Íslandsmet, geri aðrir betur. Íslandsmetin féllu ekki bara í M4 heldur einnig í M3 og M2. Jóhann Frímann lyfti í hnébeygju 77,5 kg, í bekkpressu 55 kg og í réttstöðulyftu 90 kg, samanlagður árangur 227,5 kg. Hann hlaut silfur í öllum greinum og varð í 2. sæti samanlagt í sínum flokki.
Sæmundur Guðmundsson keppti í M4 (70 ára og eldri), -83 kg. Hann átti flottan dag, lyfti 150 kg í hnébeygju, 92,5 kg í bekkpressu og 190 kg í réttstöðulyftu, samanlagður árangur 432,5 kg. Hann hlaut bronsverðlaun í öllum greinum og varð í 3. sæti samanlagt.
Flosi Jónsson keppti í M4 (70 ára og eldri), -105 kg. Flosi átti frábæran dag, tók M4 Íslandsmet í hnébeygju með 165 kg og í bekkpressu með 125 kg. Í réttstöðulyftu jafnaði Flosi sinn besta árangur með 190 kg. Samanlagður árangur 480 kg. er nýtt M4 Íslandsmet. Flosi hlaut silfur í hnébeygju og réttstöðulyftu og gull í bekkpressu. Hann hlaut 2. sætið í samalögðu í sínum flokki eftir að hafa lyft jafn miklu í samalögðu og keppandinn í 1. sæti en horfa þurfti til líkamsþyngdar til að skera úr um sæti.
Íslenska karlaliðið í M4 flokknum gerði sér svo lítið fyrir og vann silfurverðlaun í liðakeppninni!
Dagmar Agnarsdóttir (M4 (70 ára og eldri), -57 kg átti magnaðan dag á pallinum. Hún sló samtals 6 heimsmet. Hún sló heimsmetið í hnébeygju í sínum flokki þrisvar og tók seríuna 86,5 kg 90 kg og 95 kg. Þetta voru íslandsmet í hnébeygju í þremur aldursflokkum; M4, M3 og M2. Í bekkpressu lyfti Dagmar 40 kg sem er nálægt hennar besta. Í réttstöðulyftu sló hún heimsmet í síðustu lyftu með 125,5 kg. Hún sló heimsmetið tvívegis í samanlögðum árangri, fyrst með 255 kg og að lokum með 260,5 kg sem er einnig Íslandsmet í M4 og M3. Með þessum frábæra árangri er Dagmar heimsmethafi í hnébeygju, réttstööulyftu og samanlögðum árangri í klassískum kraftlyftingum í M4, -57 kg flokki. Dagmar hlaut gullverðlaun í öllum greinum og varð í 1. sæti í samalögðum árangri sínum flokki.
KRAFT óskar fjórmenningunum innilega til hamingju með frábæran árangur!
Hér má sjá myndir af kempunum (teknar af fésbókarsíðu EPF)



