Á fjórða degi Evrópumóts öldunga í klassískum kraftlyftingum kepptu þrír Íslendingar.
Sigríður Snorradóttir var fyrst á pallinn. Hún keppti í M2 (50-59 ára), -76 kg. Þetta var frumraun Sigríðar á alþjóðmóti. Hún opnaði í hnébeygju strax á persónulegri bætingu, 130 kg, og í þriðju lyftu 135 kg, samtals 7,5 kg bæting. Í bekkpressu opnaði hún á 72,5 kg en því miður fóru hinar tvær ekki upp. Í réttstöðulyftu tók hún 145 kg og bætti þar með samanlagðan árangur sinn, samtals 352,5 kg. Sigríður lenti í 8. sæti í flokknum.
Þórunn Brynja Jónasdóttir keppti í M2 (50-59 ára), -84 kg. Þórunn er orðin nokkuð reynd að keppa á alþjóðamótum auk þess sem hún sinnir starfi alþjóðadómara á mótinu. Í hnébeygju lyfti hún mest 135 kg sem er nálægt hennar besta. Þórunn opnaði í bekkpressu með 82,5 kg en náði því miður ekki að klára seinni tvær. Fyrsta bekkpressan skilaði samt Þórunni silfri í bekkpressu. Í réttstöðulyftu lyfti hún mest 152,5 kg sem var 2 kg bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Samanlagður árangur 370 kg sem skilaði Þórunni 4. sætið í flokknum.
Guðný Ásta Snorradóttir keppti í M2 (50-59 ára), +84 kg. Guðný Ásta lyfti í hnébeygju mest 177,5 kg sem er nýtt Íslandsmet og skilaði henni silfri í hnébeygju. Mikil spenna var í bekkpressunni þar sem Guðný Ásta keppti við tvær aðrar um EM metið og gullið í bekkpressu. Guðný Ásta sló tvisvar EM metið í bekkpressu og lyfti þyngst 110 kg en tók að lokum silfur með nýju glæsilegu Íslandsmeti. Í réttstöðulyftu voru reyndi Guðný Ásta við 182,5 kg í lokalyftu en rétt missti gripið í læsingu, endaði með 170 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur Guðnýjar Ástu var 457,5 kg sem er persónuleg bæting og nýtt Íslandsmet. Guðný Ásta tryggði sér með frábærum árangri á pallinum brons í flokknum.
KRAFT óskar stöllunum innilega til hamingju með frábæran árangur !



