Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið Sóleyju Margréti Jónsdóttur og Alexander Örn Kárason kraftlyftingafólk ársins 2024. Bæði tvö hafa sýnt framúrskarandi árangur á árinu og eru vel að titlinum komin.
Kraftlyftingakona ársins 2024: Sóley Margrét Jónsdóttir, Kraftlyftingadeild Breiðabliks
Sóley Margrét Jónsdóttir er kraftlyftingakona ársins í fjórða sinn en hún hlaut þennan titil einnig árin 2019, 2020 og 2023. Sóley sem er 23 ára, keppir í kraftlyftingum með búnaði í +84kg flokki og er að klára sitt síðasta ár í unglingaflokki, en hefur þrátt fyrir ungan aldur keppt í opnum flokki síðastliðin þrjú ár.
Sóley náði þeim frábæra árangri að verða bæði Evrópumeistari og heimsmeistari á árinu í fullorðinsflokki. Þar að auki bætti hún heimsmetið í samanlögðum árangri í unglingaflokki og ávann sér keppnisrétt á Heimsleikunum (World Games) sem fara fram í Kína á næsta ári.
Helstu afrek ársins:
HM á Íslandi í nóvember
Heimsmeistari og gullverðlaun í samanlögðum árangri – 710 kg. Heimsmet unglinga.
Gullverðlaun í hnébeygju – 282.5 kg.
Silfurverðlaun í bekkpressu – 200 kg.
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 227.5 kg.
EM í Lúxemborg í maí
Evrópumeistari og gull í samanlögðum árangri – 677.5 kg.
Silfurverðlaun í hnébeygju – 280 kg.
Gullverðlaun í bekkpressu – 192.5 kg.
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 205 kg.
Stigaárangur og Íslandsmet
Besti stigaárangur íslenskra kvenna á árinu í kraftlyftingum með búnaði – 100.23 IPF GL stig, auk þess sem hún bætti sín eigin Íslandsmet í öllum greinum.
Kraftlyftingakarl 2024: Alexander Örn Kárason, Kraftlyftingadeild Breiðabliks.
Alexander Örn Kárason er kraftlyftingakarl ársins 2024 og hlýtur nafnbótina í annað sinn en hann er 26 ára gamall og keppir í klassískum kraftlyftingum í –93 kg flokki. Alexander náði mjög góðum árangri á EM í klassískum kraftlyftingum þar sem hann hafnaði í 5. sæti og blandaði sér í baráttuna um verðlaun í bekkpressu.
Helstu afrek ársins:
EM í Króatíu í mars
Fimmta sæti – 777.5 kg.
HM í Litháen í júní
19. sæti – 755 kg.
Stigaárangur og Íslandsmet
Hæsti stigaárangur íslenskra karla frá upphafi í klassískum kraftlyftingum – 102.41 IPF GL stig, auk þess sem hann bætti öll sín Íslandsmet á árinu.
Innilegar hamingjuóskir til ykkar Sóley og Alexander!