Skip to content

Sóley Margrét Jónsdóttir og Alexander Örn Kárason kraftlyftingafólk ársins 2024.

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur valið Sóleyju Margréti Jónsdóttur og Alexander Örn Kárason kraftlyftingafólk ársins 2024. Bæði tvö hafa sýnt framúrskarandi árangur á árinu og eru vel að titlinum komin.

Kraftlyftingakona ársins 2024: Sóley Margrét Jónsdóttir, Kraftlyftingadeild Breiðabliks

Sóley Margrét Jónsdóttir er kraftlyftingakona ársins í fjórða sinn en hún hlaut þennan titil einnig árin 2019, 2020 og 2023. Sóley sem er 23 ára, keppir í kraftlyftingum með búnaði í +84kg flokki og er að klára sitt síðasta ár í unglingaflokki, en hefur þrátt fyrir ungan aldur keppt í opnum flokki síðastliðin þrjú ár.

Sóley náði þeim frábæra árangri að verða bæði Evrópumeistari og heimsmeistari á árinu í fullorðinsflokki. Þar að auki bætti hún heimsmetið í samanlögðum árangri í unglingaflokki og ávann sér keppnisrétt á Heimsleikunum (World Games) sem fara fram í Kína á næsta ári.

Helstu afrek ársins:
HM á Íslandi í nóvember
Heimsmeistari og gullverðlaun í samanlögðum árangri – 710 kg. Heimsmet unglinga.
Gullverðlaun í hnébeygju – 282.5 kg.
Silfurverðlaun í bekkpressu – 200 kg.
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 227.5 kg.

EM í Lúxemborg í maí
Evrópumeistari og gull í samanlögðum árangri – 677.5 kg.
Silfurverðlaun í hnébeygju – 280 kg.
Gullverðlaun í bekkpressu – 192.5 kg.
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 205 kg.

Stigaárangur og Íslandsmet
Besti stigaárangur íslenskra kvenna á árinu í kraftlyftingum með búnaði – 100.23 IPF GL stig, auk þess sem hún bætti sín eigin Íslandsmet í öllum greinum.

Kraftlyftingakarl 2024: Alexander Örn Kárason, Kraftlyftingadeild Breiðabliks.

Alexander Örn Kárason er kraftlyftingakarl ársins 2024 og hlýtur nafnbótina í annað sinn en hann er 26 ára gamall og keppir í klassískum kraftlyftingum í –93 kg flokki. Alexander náði mjög góðum árangri á EM í klassískum kraftlyftingum þar sem hann hafnaði í 5. sæti og blandaði sér í baráttuna um verðlaun í bekkpressu.

Helstu afrek ársins:
EM
í Króatíu í mars
Fimmta sæti – 777.5 kg.

HM í Litháen í júní
19. sæti – 755 kg.

Stigaárangur og Íslandsmet
Hæsti stigaárangur íslenskra karla frá upphafi í klassískum kraftlyftingum – 102.41 IPF GL stig, auk þess sem hann bætti öll sín Íslandsmet á árinu.

Innilegar hamingjuóskir til ykkar Sóley og Alexander!