Skip to content

Mótaskrá 2025 komin á netið

Mótaskrá næsta árs, 2025, hefur nú verið birt á síðu KRAFT, sjá hér: https://results.kraft.is/meets/2025

Nokkrar nýjungar og breytingar er að finna frá því sem verið hefur undanfarin ár. Kraftlyftingar verða ekki á RIG 2025 en árið byrjar hjá okkur með ÍM í bekkpressu í janúar. Önnur nýjung er að nú er stefnt að því að hafa tvö byrjendamót/dómarapróf á árinu. Það er til að koma til móts við mikla og góða nýliðun í kraftlyftingunum og eins til að fjölga í dómarastéttinni, enda ekki vanþörf á. Von okkar er að annað byrjendamótið verði á höfuðborgarsvæðinu og hitt á landsbyggðinni. Á komandi ári verður ÍM unglinga og öldunga í klassískum kraftlyftingum aðskilið í tvö mót þar sem stærð mótsins var orðin slík að það var illviðráðanlegt að hafa þessa tvo stóru flokka saman í einu móti. Nýtt alþjóðlegt mót, Smáþjóðamótið, verður í Lúxemborg í lok febrúar. Ekki er búið að ganga endanlega frá fyrirkomulagi þess móts en stefnt er að því að keppt verði á stigum á því móti. Það mót er hugsað sem C mót að styrkleika. Meira um það þegar nær dregur. Flest önnur alþjóðamót eru á svipuðum stað í dagatalinu eins og verið hefur nema EM unglinga í klassískum færist aftur á gamlar slóðir í byrjun desember. Að lokum má nefna að Ísland er mótshaldari NM unglinga árið 2025 og er það mót um miðjan september. Það er verður því þriðja árið í röð sem alþjóðlegt mót er haldið á Íslandi.

Við hvetjum aðiladarfélög KRAFT til að láta hendur standa fram úr ermum í mótahaldi komandi árs og senda inn óskir um mótahald á kraft@kraft.is.