Stjórn KRAFT valdi kraftlyftingafólk ársins 2022 á fundi sínum 12.desember sl. skv. Reglugerð Kraftlyftingasambands Íslands um val á kraftlyftingamanni ársins
Kraftlyftingakona 2022: Kristín Þórhallsdóttir
Kristín Þórhallsdóttir er kraftlyftingakona ársins i annað sinn og annað árið í röð, en hún keppir í klassískum kraftlyftingum í -84kg flokki. Kristín er 38 ára gömul og keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness.
Kristín vann silfurverðlaun á EM og HM og tvíbætti evrópumetin í hnébeygju og samanlögðu á árinu.
Hún bætti auk þess íslandsmetin í hnébeygju, réttstöðulyftu, réttstöðulyftu single lift og samanlögðu.
Kristín náði 110,27 IPF-GL stigum á árinu, en það er mesti stigafjöldi sem náðst hefur af íslenskum keppanda.
Helstu afrek ársins:
HM í Suður-Afríku í júni
Silfurverðlaun samanlagt – 580 kg – nýtt evrópumet
Silfurverðlaun í hnébeygju – 230 kg – nýtt evrópumet
Silfurverðlaun í bekkpressu – 120 kg
Bronsverðlaun í réttstöðulyftu – 230 kg – nýtt íslandsmet
EM í Póllandi í desember
Silfurverðlaun samanlagt – 575 kg
Gullverðlaun í hnebeygju – 217,5 kg
Bronsverðlaun í bekkpressu – 120 kg
Silfurverðlaun í réttstöðulyftu – 237,5 kg
Kraftlyftingakarl 2022: Guðfinnur Snær Magnússon
Guðfinnur Snær Magnússon er kraftlyftingakarl ársins 2022 og hlýtur nafnbótina í fyrsta sinn. Hann er 25 ára gamall og keppir fyrir Kraftlyftingadeild Breiðabliks.
Guðfinnur keppir í kraftlyftingum í +120kg flokki. Hann lenti í fjórða sæti í sínum flokki á HM og vann bronsverðlaun í bekkpressu sem er hans sterkasta grein. Guðfinnur er bikarmeistari ársins í bekkpressu og varð í þriðja sæti á bikarmótinu í klassískri bekkpressu.
Helstu afrek ársins:
HM í Danmörku í nóvember
Fjórða sæti samanlagt – 995 kg
Bronsverðlaun í bekkpressu – 315 kg
Bikarmeistari KRAFT í bekkpressu – Þriðja sæti á Bikarmóti KRAFT í klassískri bekkpressu