Í Bolungarvík starfar Kraftlyftingadeild UMFB og er aðili að Héraðssambandi Bolungarvíkur. Deildin var stofnuð 3.febrúar 2015 og var þá 18.aðildarfélagið í KRAFT.
Það voru hjónin Inga Rós Georgsdóttir og Helgi Pálsson sem áttu frumkvæðið að stofnun deildarinnar en þau hófu að stunda kraftlyftingar þegar þau bjuggu fyrir sunnan og kepptu i byrjun fyrir kraftlyftingadeild Breiðabliks. Þegar þau fluttu vestur gerðust þau fyrst félagar í Kraftlyftingafélaginu Víkingi á Ísafirði en sáu fljótlega ástæðu til að segja sér úr því og stofna sitt eigið félag í heimabyggð. Inga Rós hefur verið formaður deildarinnar frá upphafi og virkasti keppandinn hefur verið Helgi.
Þetta er samt ekki einkafélag þeirra hjóna heldur eru 9 iðkendur skráðir í hópnum og vonandi fáum við að sjá fleiri þátttakendur frá þeim á næstunni.
Félagið hefur aðstoðu til æfinga í íþróttamiðstöðinni Árbær og notar þau tæki og tól sem þar eru. Þar er hægt að gera flestar nauðsynlegar æfingar, en þetta er almenningsrými og stundum þröngt í salnum enda hefur félagið ekkert rými útaf fyrir sig. Ekkert félagsgjald er tekið, en meðlimir þurfa að greiða fyrir aðgang að stöðinni sem er rekin af bæjarfélaginu.
Efst á verkefnaskrá deildarinnar er að verða sér úti um löglegar keppnisgræjur, lóð, stangir og statíf, en það segir sig sjálft að það er forsenda fyrir framtíðaruppbyggingu. Vonin er að íþróttayfirvöld í bænum sjái gildi þess að efla styrktarþjálfun og kraftlyftingaiðkun og styrki deildinni til kaupanna. Annað verkefni sem Inga Rós er með á prjónunum er að koma á fót æfingarhóp fyrir konur.
Þau hjónin hafa verið dugleg að sækja bæði mót og fundi á vegum KRAFT og tekið virkan þátt í starfi sambandsins.