Skip to content

Frá formanni: Að gefnu tilefni

  • by

Í ljósi umræðu um styrkveitingu Afrekssjóðs ÍSÍ til Kraftlyftingasambands Íslands vegna íþróttamanns sem er á lista alþjóðasambands vegna brots á lyfjalögum er rétt að leiðrétta ýmsar fullyrðingar og misskilning sem komið hefur fram.

Í lögum ÍSÍ, WADA og IPF um lyfjamál eru ákvæði um trúnaðarskyldur sem og málsmeðferðir. Stjórn KRAFT, stjórnir aðildarfélaga svo og allir iðkendur eru skuldbundnir að virða þau lög og fara eftir þeim.

Þegar brot á alþjóðlegum lyfjalögum á sér stað fer í gang ferli sem er nánar tilgreint í lögum. Aganefnd IPF sem undirritaður er formaður fyrir starfar með þeim hætti að komi upp meint brot sem snertir íþróttamann lands nefndarmanns er þess vandlega gætt að nefndarmaðurinn fái enga vitneskju um málið. Honum er því ekki kunnugt um að viðkomandi mál hafi yfirleitt komið upp og fær engar upplýsingar á meðan vinnsla málsins hjá Aganefnd IPF á sér stað.

Tilkynning um meint brot íþróttamannsins barst stjórn KRAFT í upphafi desember. Frá þeim tíma var stjórnin skv. lögum bundin trúnaði. Allar fullyrðingar þess efnis að formaður eða aðrir stjórnarmenn hafi vitað fyrr af málinu eru rangar og óviðeigandi.

Umsóknir til afrekssjóðs skulu skv. reglum sjóðsins berast fyrir lok nóvember ár hvert. Stjórn KRAFT skilaði umsóknunum inn fyrir lok umsóknarfrests. Á þeim tíma var hvorki formanni né öðrum stjórnarmönnum kunnugt um meint brot íþróttamannsins. Allar fullyrðingar eða dylgjur í þá veru eru því fullkomlega úr lausu lofti gripnar og eiga enga stoð í raunveruleikanum.

Þegar ársþing KRAFT var haldið í janúar var meint brot enn til meðferðar hjá Lyfjadómstóli IPF og ríkti því enn trúnaður um málið. Þann trúnað bar stjórn KRAFT að virða skv. lögum. Niðurstaða viðkomandi dómstóls lá ekki fyrir.  Það er hlutverk Lyfjadómstóls IPF að dæma í alþjóðlegum lyfjamálum en ekki stjórnar KRAFT og ekki einstakra félaga í aðildarfélögum KRAFT. Nú er dómur fallinn en réttur til áfrýjunar er þrjár vikur frá uppkvaðningu dóms.

Allar fullyrðingar þess efnis að stjórn KRAFT hafi brugðist eru því fullkomlega rangar. Þvert á móti brást stjórn rétt og faglega við í samræmi við lög og reglur.

Rétt er að taka fram að KRAFT veitir  ekki og úthlutar ekki afreksstyrkjum til íþróttamanna. KRAFT sendir Afrekssjóði umsóknir um styrk vegna íþróttalegs kostnaðar íþróttamannsins við undirbúning og þátttöku í alþjóðlegum mótum. Íþróttamaðurinn fær síðan endurgreiddan útlagðan kostnað skv. framlögðum kostnaðarreikningum vegna þeirra verkefna og í samræmi við kostnaðaráætlanir sem lagðar voru fram með umsókn til Afrekssjóðs. Gangi áætlanir um þátttöku í tilgreindum mótum ekki eftir er því ekki um neinar greiðslur að ræða til íþróttamannsins.

Allt frá stofnun KRAFT fyrir fimm árum hefur verið lögð ofuráhersla á baráttuna gegn misnotkun ólöglegra lyfja í kraftlyftingum. Tekist hefur með samstilltu átaki fjölda einstaklinga og félaga að byggja upp jákvæða ímynd íþróttarinnar. Nú eru tæplega 1200 skráðir iðkendur í Felixkerfi ÍSI og UMFÍ. Hlutfall ungs fólks og kvenna er orðið verulegt sem er grundvallarbreyting frá því sem áður var.

Í nóvember sl. var gert samkomulag við Lyfjaeftirlit ÍSÍ um sérstök kaup KRAFT á lyfjaprófum umfram þau próf sem koma í hlut sambandsins úr sameiginlegum potti. Á ársþinginu var síðan samþykkt sérstakt fjárframlag til þessara kaupa. Markmiðið er að styrkja og auka enn frekar baráttuna gegn notkun ólöglegra efna. Hér er um merkilegt frumkvæði sérsambands að ræða sem við getum verið stolt af.

Stjórn KRAFT skorar á alla sína félagsmenn og stuðningsmenn að leggjast á eitt í áframhaldandi baráttu gegn lyfjamisnotkun. Í þeirri baráttu hvílir ábyrgð á stjórn sambandsins, á stjórnum félaga og á hverjum einasta iðkanda. Eitt fall er einu of mikið.

Stjórn KRAFT mun áfram sem hingað til vinna að hagsmunum, framgangi, vexti og viðgangi kraftlyftinga á Íslandi.

Ég vil hvetja alla kraftlyftingamenn, karla og konur, til að standa saman, sýna stillingu og vinna að uppbyggingu greinarinnar. Við getum verið hreykin af okkar íþrótt og þeim árangri sem náðst hefur hvað varðar uppbyggingu starfsins og íþróttalegan árangur á alþjóðlegum vettvangi. Ég vil sérstaklega hvetja okkar ungu og efnilegu iðkendur til dáða.

STÖNDUM SAMAN .

Sigurjón Pétursson, formaður KRAFT
8. febrúar 2015

Í ljósi umræðu um styrkveitingu Afrekssjóðs ÍSÍ til Kraftlyftingasambands Íslands hefur ÍSÍ birt frétt á heimasíðu sinni: http://isi.is/frettir/frett/2015/02/01/Afreksstyrkir-og-lyfjaeftirlit/