Ársþing Kraftlyftingasambands Íslands 2025 var haldið sunnudaginn 30. mars.
Góð mæting var á þingið. Samkvæmt venju var kraftlyftingafólk ársins 2024 heiðrað sem eru Sóley Margrét Jónsdóttir (BRE) og Alexander Örn Kárason (BRE). Stigahæstu liðin voru einnig heiðruð sem eru Kraftlyftingadeild Breiðabliks í karlaflokki og Kraftfélagið í kvennaflokki.
Í nóvember á síðasta ári var HM í kraftlyftingum með búnaði haldið af Massa og KRAFT. Félagsmenn í Massa voru heiðraðir á ársþinginu fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf á mótinu sem tókst í alla staði einstaklega vel. Í ár hlutu Sóley Margrét Jónsdóttir (BRE) og Júlían J. K. Jóhannsson (ÁRM) gullmerki KRAFT fyrir afrek sín í kraftlyftingum. Í fyrsta skipti var afhent heiðursmerki KRAFT, sem er veglegur hringur. Fyrsti handhafi heiðursmerkisins er Auðunn Jónsson sem hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu kraftlyftinga til margra ára.
Á ársþinginu risu fundarmenn úr sætum til að votta virðingu minningu Skúla Óskarssonar sem lést 9. júní 2024.
Á ársþinginu lét Hinrik Pálsson af embætti sem formaður KRAFT og nýr tók við, Laufey Agnarsdóttir, en hún hefur verið ritari KRAFT síðustu árin. Engin mótframboð bárust í formanninn svo hún var sjálfkjörin. María Guðsteinsdóttir meðstjórnandi ákvað að bjóða sig ekki fram til endurkjörs. Fimm félagar voru búnir að bjóða sig fram í þau fjögur sæti sem voru laus í stjórn, þrjú af þeim til tveggja ára og eitt til eins árs (áður sæti Laufeyjar). Í framboði voru Alex Cambrey Orrason, Auðunn Jónsson, Elín Melgar Aðalheiðardóttir, Ingimundur Björgvinsson og Kristleifur Andrésson. Auðunn dró framboð sitt til baka á ársþinginu, vill einbeita sér að hlutverki sínu sem íþróttastjóri KRAFT. Þannig að hin fjögur voru því sjálfkjörin og ekki þörf á frekari kosningum. Það var samþykkt að Alex tæki sætið sem spannar eitt ár.
Nýja stjórn KRAFT skipa nú Alex Cambray Orrason, Aron Ingi Gautason, Elín Melgar Aðalheiðardóttir, Ingimundur Björgvinsson, Kristleifur Andrésson, Laufey Agnarsdóttir (formaður) og Þórunn Brynja Jónasdóttir. Undir liðnum önnur mál í lokin var uppfærsla á Afreksstefnu KRAFT kynnt fyrir fundarmönnum. Góðar umræður urðu um nokkur mál sem sum munu rata inn á borð nýrrar stjórnar. Fundargerð ársþings ásamt ársreikningi 2024 verður fljótlega aðgengileg á heimasíðu KRAFT.
Meðfylgjandi er hlekkur á myndir sem teknar voru á þinginu af alkunnri snilld Sigurjóns Péturssonar.
https://www.flickr.com/photos/kraft2010/albums/72177720324752735