Aron Teitsson, Grótta, keppti í dag á HM í klassiskum kraftlyftingum og átti góðan dag. Hann er orðinn reyndur keppnismaður og sýndi það í yfirveguðum og vel útfærðum lyftum. Hann kemur heim með verðlaun, þrjú ný Islandsmet og góðar bætingar í farteskinu.
Hann viktaði 91,25 kg og var með léttari mönnum í -93 kg flokknum.
Aron fékk ógilt í fyrstu tilraun í hnébeygju, en lyfti síðan 230 og 242.5 og setti þar með nýtt Íslandsmet í greininni.
Á bekknum opnaði Aron á nýju islandsmeti 180 kg og tók síðan 190 kg örugglega. Hann kláraði svo 195 með stæl í síðustu tilraun og vann með því til bronsverðlauna í greininni og bætti Islandsmetið um 20 kg á einu bretti.
Í réttstöðu lyfti Aron fyrst 270 auðveldlega, tók svo 285 jafn örugglega. Hann reyndi við 295 í þriðju, en það var of þungt í þetta sinn.
Aron endaði þar með á nýju Íslandsmeti samanlagt 722,5 kg, 30 kg persónuleg bæting, en það gaf honum 9 sætið í flokknum.
Baráttan um gullið var hörð og vannst á líkamsþyngd, en sigurvegari var Krzysztof Wierzbicki frá Póllandi með 847,5 kg.
Við óskum Aroni til hamingju með glæsilegan árangur.