Auðunn Jónsson, kraftlyftingamaður Íslands 2010 og einn af bestu kraftlyftingamönnum heims verður meðal keppenda á Arnold Classic ProDeadlift réttstöðumóti í Columbus Ohio 5.mars nk.
Keppnin er liður í Arnold Sports Festival, ein af stærstu íþróttasamkomum í Bandaríkjunum og þó víðar væri leitað. Heildarmótið er stórt í sniðum og glæsilegt að hætti heimamanna, keppt er í mörgum greinum og draumur margra að fá að vera með, en til réttstöðukeppninnar eru boðnir fáir útvaldir hverju sinni. Her má sjá lista yfir keppendur 2011.
Réttstöðukeppnin fer fram á aðalsviði laugardaginn 5.mars.
Auðunn er að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir mótið og segist hlakka míkið til. Hann á von á harðri keppni en er í ágætu formi og bjartsýnn á góðan árangur.
Ríkissjónvarpið tók hús á honum á síðustu æfingu og verður viðtalið væntanlega sýnt í þættinum Sportið á morgunn þriðjudag kl. 20.05.
Við óskum Auðunni góðrar ferðar og góðs gengis.