Skip to content

Alexander með tvö Íslandsmet á Evrópumótinu.

Þrír Íslendingar luku keppni í dag á EM í klassískum kraftlyftingum. Harrison Asena Kidaha og Alexander Örn Kárason sem báðir kepptu í -93 kg flokki og Viktor Samúelsson í -105 kg flokki.

Harrison átti mjög góðan dag og náði að bæta árangur sinn um mörg kíló. Í hnébeygju lyfti hann 277.5 kg og bætti sig um 12.5 kg en endaði með 180 kg í bekkpressu sem er jöfnun á hans besta. Réttstöðulyftan gekk líka mjög vel þar sem hann bætti sig um 7.5 kg með 300 kg lyftu. Samanlagt lyfti hann 757.5 kg með bætingu uppá 22.5 kg en þessi árangur gaf honum 17. sætið í flokknum.

Alexander gekk líka vel á mótinu og lyfti mest 280 kg í hnébeygju sem er jöfnun á Íslandsmetinu hans. Í bekkpressu endaði hann með 200 kg sem er nýtt Íslandsmet og í réttstöðu tók hann 300 kg. Samanlagður árangur hans endaði í 785 kg sem er bæting um 5 kg á hans eigin Íslandsmeti og skilaði honum 11. sætinu.

Síðastur á keppnispallinn var Viktor Samúelsson en hann náði að lyfta 272.5 kg í hnébeygju í sinni annarri tilraun en 10 kg hækkun reyndist of þungt í þriðju tilraun. Í bekkpressu lyfti hann mest 190 kg og 317.5 kg fóru upp hjá honum í réttstöðunni. Hann átti svo góða tilraun við nýtt Íslandsmet í þriðju tilraun en það hafðist ekki í dag. Samanlagt lyfti Viktor 780 kg og hafnaði í 18. sæti.

Til hamingju allir með góðan árangur!