Alex Cambray Orrason frá KA keppti í gær á EM í búnaði í -93 kg flokki.
Hann lyfti 317,5 kg í hnébeygju og var hársbreidd frá því að fá gilda lyftu með 330 kg (tvö rauð ljós á dýpt) sem hefði fleytt honum í verðlaunasæti í beygjunni. Í bekkpressu lyfti hann 207,5 kg og 270 kg í réttstöðulyftu. Samanlagt fóru því 795 kg á loft sem dugðu til fimmta sætis af níu keppendum í sterkum flokki.
Undirbúningur fyrir mótið hafði gengið mjög vel og Alex hefur sjaldan verið í betra formi en nú. Hann var svo óheppinn að veikjast rétt fyrir mótið af því sem nú er komið í ljós að var streptókokkasýking. Við óskum Alex til hamingju með góðan árangur. Það er ljóst að hann ætlar sér stærri hluti á komandi tímum og hefur alla burði til að taka stór skref frammávið. Við fylgjumst spennt með!