Ekki stytta þér leið með því að nota ólögleg efni. Það er óheiðarlegt. Og hættulegt. Og kemur slæmu orði á þig og íþróttina þína.
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –
Allir iðkendur kraftlyftinga þurfa að vera upplýstir um þær reglur sem gilda um lyfjamál, lyfjapróf og um sína eigin ábyrgð. Verið vakandi, ekki er víst að löglega keypt fæðubótarefni séu lögleg samkvæmt lyfjalögum.
Ef íþróttamaður þarf að taka inn einhver lyf samkvæmt læknisráði er vissara að kanna hvort efni í þeim séu á bannlista, en þá þarf að sækja um undanþágu. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Á heimasíðu IPF, Alþjóða kraftlyftingasambandinu, er flipi merktur Anti-Doping.
Þar undir má finna fræðslu og margvíslegar upplýsingar um þessi mál.
Allir sem taka þátt í landsliðsverkefni verða að gefa upp staðsetningu sína á fyrirfram ákveðnum tíma svo hægt verði að framkvæma óundirbúið lyfjapróf og er það tekið fram í landsliðssamningi.
ÍSLAND er samningsaðili UNESCO þjóðaréttarsamnings um aðgerðir gegn misnotkun lyfja í íþróttum (2005) sem m.a. bannar algerlega allan opinberan stuðning við íþróttastarfsemi sem fram fer án löglegs lyfjaeftirlits.