Í nýsamþykktum mótareglum KRAFT er mikilvæg breyting í orðalagi 19.greinar. Breytingin varðar skyldu allra félaga að senda starfsmenn á mót.
Nauðsynlegt er að skrá starfsmenn um leið og keppendur eru skráðir – annars tekur skráning ekki gildi.
Ástæðurnar fyrir þessum reglubreytingum eru ljósar öllum þeim sem hafa staðið í mótahaldi.
Helstu ástæðurnar eru:
– að auka og tryggja gæði móta.
– að auðvelda smærri félögum að halda mót
– að fjölga dómerum og reyndum starfsmönnum í öllum félögum
– að gefa öllum hlutverk, líka þeim sem eru ekki keppendur í það skiptið
– að stuðla þannig að eflingu liðsanda
Reglan hljóðar:
19. gr. Starfsmenn á mótum
Það er sameiginleg skylda mótshaldara og þeirra félaga sem senda keppendur á mót að sjá til þess að nægilegur fjöldi dómara og starfsmanna sé á mótinu. Hvert félag fyrir sig ber ábyrgð á sínum dómurum og starfsmönnum. Allir dómarar og starfsmenn á móti skulu vera meðlimir í félögum innan KRAFT og skráðir sem slíkir í Felix. Starfsmenn skulu vera auðkenndir með fatnaði eða merkjum.
Félag sem sendir allt að tvo keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn dómara eða starfsmann.
Hvert félag sem sendir 3-4 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti einn starfsmann og einn dómara.
Hvert félag sem sendir 5-6 keppendur á mót skal leggja til tvo dómara og tvo starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 7-10 keppendur á mót skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og þrjá starfsmenn.
Hvert félag sem sendir 11 keppendur eða fleiri skal leggja til að minnsta kosti tvo dómara og 4 starfsmenn.
Beiðni um skráningu keppenda öðlast þá fyrst gildi þegar ofangreindum ákvæði er fullnægt.
Forfallist skráður starfsmaður er það á ábyrgð þess félags sem hann er fulltrúi fyrir að finna og tilkynna staðgengil. Mótshaldari metur hversu marga starfsmenn hann þarf á að halda og lætur félögin vita eins fljótt og hægt er.