Nú styttist í heimsmeistaramótið í kraftlyftingum með búnaði, en í ár verður mótið haldið á heimavelli. Keppni mun standa yfir dagana 11.–16. nóvember og fer mótið fram í Íþróttamiðstöðinni í Njarðvík að Norðurstíg 4, Reykjanesbæ. Þátttaka á mótinu er góð enda munu margir freista þess að vinna sér inn keppnisrétt á World Games 2025.
Fyrir hönd Íslands keppa sex keppendur, fimm karlar og ein kona.
Alex Cambray Orrason keppir í -93 kg flokki og er að mæta á sitt þriðja heimsmeistaramót en hann hefur líka keppt á fimm Evrópumeistaramótum og orðið Vestur-Evrópumeistari árin 2019 og 2022. Alex keppir miðvikudaginn 13. nóvember kl. 14:30.
Hjálmar Andrésson keppir í -105 kg flokki. Hjálmar hefur keppt í kraftlyftingum í 10 ár á innanlandsvettvangi en þetta er hans fyrsta alþjóðamót. Hjálmar mun lyfta á fimmtudaginn 14. nóvember kl. 14:00.
Einar Örn Guðnason sem keppir í -120 kg flokki er Íslandsmethafi í bekkpressu og samanlögðum árangri. Hann hefur keppt á EM og HM í unglingaflokki og fimm sinnum á Reykjavík International Games. Einar keppir föstudaginn 15. nóvember 17:00.
Egill Hrafn Benediktsson er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti en hann keppir líka í -120 kg flokki. Hann keppti á Vestur-Evrópumótinu árið 2023 þar sem hann vann til bronsverðlauna. Egill keppir föstudaginn 15. nóvember 17:00.
Sóley Margrét Jónsdóttir sem keppir í +84 kg flokki á mörg alþjóðamót að baki og mun án efa blanda sér í baráttu um verðlaun. Hún náði þeim frábæra árangri að verða Evrópumeistari árin 2023 og 2024 og hefur tvisvar unnið til silfurverðlauna á HM. Sóley keppir laugardaginn 16. nóvember kl. 10:00.
Guðfinnur Snær Magnússon er keppandi í +120 kg flokki og er að keppa á sínu fjórða
heimsmeistaramóti í opnum flokki. Hann hefur tvisvar hafnað í fjórða sæti á HM en náði bronsverðlaunum í bekkpressu á HM 2022. Þá keppti hann á Vestur-Evrópumótinu árið 2023 þar sem hann vann til gullverðlauna. Guðfinnur keppir laugardaginn 16. nóvember kl. 15:00.
Áfram Ísland!