Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands veitti á þinginu 29.febrúar sl Maríu E Guðsteinsdóttur gullmerki KRAFT. Áður hafa Skúli Óskarsson og Helgi Hauksson fengið það.
María Elísabet Guðsteinsdóttir á að baki meira en 20 ára sigursælan feril í kraftlyftingum.
Hún er með reyndustu íþróttamönnum landsins, hefur keppt á ótal meistaramótum innanlands og utan, m.a. á tíu heimsmeistaramótum í opnum flokki og náði þar best 7.sæti 2014. Hún var Norðurlandameistari fyrst íslenskra kraftlyftingakvenna og fyrsta konan á pall á EM með brons í HB 2008. Hún er margfaldur Íslandsmeistari og hefur sett 350 íslandsmet á ferlinum og er hvergi nærri hætt.
María er fædd 1970 og verður fimmtug á þessu ári. Hún æfir áfram sem afrekskona og keppir í öldungaflokkum af sömu hörku og varð heimsmeistari öldunga 2018. María hefur þrisvar sinnum verið valin kraftlyftingakona ársins.
Að auki á María að baki ómetanlegt og ómælanlegt starf í stjórnum og nefndum bæði Kraftlyftingasambandsins og Ármanns. Hún hefur sinnt dómgæslu, mótahaldi, kennslu og þjálfun – í stuttu máli komið að kraftlyftingaíþróttinni frá öllum hliðum og á stóran þátt í framgangi hennar og hefur opnað leið inn í þetta sport fyrir marga, ekki síst konur.
María hefur sinnt öllu þessu starfi af heilindum og eldmóði og hefur verið okkur öllum frábær fyrirmynd og hvatning. Hún hefur verið sjálfri sér, íþróttinni og Íslandi til sóma í öllum þessu verkum og nýtur mikillar virðingar í kraftlyftingaheiminum bæði hér heima og erlendis. Fyrir hennar ómetanlega framlag í þágu kraftlyftingaíþróttarinnar á Íslandi viljum við veita henni þessa viðurkenningu.