Skip to content

Kraftlyftingafélag Akraness

  • by

Stöðug fjölgun kraftlyftingafélaga og -iðkenda hefur átt sér stað undanfarin misseri og stjórn hefur ákveðið að hefja kynningu á aðildarfélögum með reglulegum greinum hér á síðunni.
Við hefjum yfirferðina á spurningunni: HVAÐ ER AÐ FRÉTTA AF SKAGANUM?

Á Akranesi starfar Kraftlyftingafélag Akraness sem er aðili að ÍA, Íþróttabandalagi Akraness. Félagið var eitt af stofnfélögum KRAFT en stofnfundurinn var haldinn 24.nóvember 2009 og var Hermann Hermannsson fyrsti formaður þess.
Hér má lesa um tilurð félagsins.
Núverandi formaður er Einar Örn Guðnason og með honum í stjórn eru Lára Finnbogadóttir gjaldkeri, Sigurgeir Guðmundsson ritari og Arnar Harðarson og Eva Ösp Sæmundsdóttir meðstjórnendur.

Skráður fjöldi iðkenda í september 2017 er 55 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.
Félagið hefur á að skipa fjóra dómara, þá Kári Rafn Karlsson, Sturlaugur Gunnarsson, Arnar Harðarson og Arnar Helgason, en Kári og Sturlaugur hafa alþjóðadómararéttindi.

Sigursælasti og mest áberandi keppandi félagsins undanfarin misseri hefur verið formaðurinn sjálfur, Einar Örn, en hann er ríkjandi bikarmeistari KRAFT bæði með og án búnaðar og íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum auk þess sem hann á flest öll íslandsmet í -105 kg flokki.
Af yngri keppendum má nefna Svavar Örn Sigurðsson, fæddur 1999, sem kom fram á sjónarsviðið með stæl á árinu og er nú á leiðinni til Noregs til að keppa á sínu fyrsta alþjóðamóti, Norðurlandamóti drengja í klassískum kraftlyftingum.
Félagið hefur fleiri skemmtilegum og sterkum keppendum á að skipa  og afrekaði að vinna liðabikar karla á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum 2017.

Æfingaraðstaða og heimavöllur félagsins er í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Í kjallaranum þar ræður félagið ríkjum og hefur til umráða tvö herbergi og allan nauðsynlegan búnað. Aðstaðan er opin á opnunartíma hússins, en fastar æfingar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum frá 16.00 til 22.00. Félagsmenn greiða árgjald 5000 kr fyrir.

Lára Finnbogadóttir sem hefur lokið Þjálfara 1 námskeiði ÍSÍ og KRAFT, sinnir nýliðunum og mætti með þrjá keppendur á byrjendamótið 2017. Það er ekki síst gleðilegt að hægt hefur verið að mynda æfingahóp ungra kvenna og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Að sögn formannsins er samstarfið við íþróttayfirvöld í bænum mjög gott og fjölmiðlar á svæðinu hafa verið duglegir að segja frá árangri félagsmanna.
Aðspurður um helstu markmið og framtíðarsýn Skagamanna svarar hann af sinni alkunnu hógværð: að verða besta og myndarlegasta félagið á landinu.
Þar hafið þið það!
Hægt er að fylgjast með framgangi mála á facebooksíðu félagsins og instagram

Kraftlyftingamenn og -konur munu fjölmenna á Skagann helgina 9 – 10 september nk, en þá heldur Kraftlyftingafélag Akraness þrjú íslandsmót, þ.e. í bekkpressu, klassískri bekkpressu og réttstöðulyftu og ætlar að taka vel á móti gestum og veita þeim harða samkeppni.

Tags: