Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands hefur ákveðið að tilnefna Viktor Samúelsson, KFA, kraftlyftingamann ársins í karlaflokki og Fanneyju Hauksdóttur, Gróttu, í kvennaflokki.
Afrek þeirra eru öllum kraftlyftingaunnendum kunn, en hér eru þau rifjuð upp:
Viktor Samúelsson, er fæddur 1993. Hann á mjög gott keppnistímabil að baki þar sem hann hefur bætt árangur sinn verulega. Hann er stigahæsti kraftlyftingamaður landsins á árinu og hefur sigrað á öllum mótum sem hann hefur tekið þátt í innanlands. Viktor vann til verðlauna á EM og HM ungmenna og hefur sett Norðurlandamet ungmenna á árinu. Auk þess hefur hann á árinu sett mörg Íslandsmet í opnum flokki og flokki ungmenna.
Helstu afrek 2015:
HM ungmenna -120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun samanlagt
HM ungmenna -120,0 kg flokki: 3.sæti og bronsverðlaun í bekkpressu
EM ungmenna -120,0 kg flokki: 2.sæti og silfurverðlaun í bekkpressu.
ÍM í kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki
ÍM í klassískum kraftlyftingum: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki
ÍM í bekkpressu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki
ÍM í réttstöðulyftu: Íslandsmeistari í -120 kg flokki og stigahæstur í karlaflokki
Bikarmót KRAFT: bikarmeistari í karlaflokki
Norðurlandamet samanlagt í -120 kg flokki ungmenna
Íslandsmet samanlagt í -120 kg opnum flokki.
Íslandsmet í bekkpressu í -120 kg opnum flokki
Íslandsmet samanlagt og í öllum greinum í klassískum kraftlyftingum -120 kg opnum flokki
Fanney Hauksdóttir, Grótta, er fædd 1992. Hún hefur sérhæft sig í bekkpressu og er þriðji á heimslista í bekkpressu í sínum þyngdarflokki.
Helstu afrek 2015:
EM í bekkpressu í opnum flokki: 1.sæti og evrópumeistaratitill í -63 kg flokki
HM ungmenna í bekkpressu: 1.sæti og heimsmeistaratitill í -63 kg flokki
HM ungmenna í bekkpressu: stigahæsti keppandi í kvennaflokki
ÍM í bekkpressu: Íslandsmeistari í -63 kg flokki stigahæst í kvennaflokki
Fanney hefur tvíbætt heimsmet ungmenna í -63 kg flokki á árinu og sett Norðurlandamet ungmenna í klassískri bekkpressu í flokknum.
Við óskum þeim báðum til hamingju með tilnefninguna og með árangurinn á árinu.