Skip to content

WEC – frásögn

  • by

Ellert Björn Ómarsson segir frá:
Keppni á Vesturevrópumótinu 2022 hófst á föstudaginn 9.september í Aulnaut Frakklandi.
Íslendingar fjölmenntu í höllina  en ásamt keppendunum sex var Helgi Hauksson alþjóðadómari, ásamt þjálfurum og aðstoðarfólki (Þórunn Brynja Jónsdóttir, Íris Hrönn Garðarsdóttir, Ellert Björn Ómarsson, Jens Andri Fylkisson, Ragnar Hansen og Gréta Pálín)

Hilmar Símonarson var fyrstur af íslensku keppendum til að stíga á pall en hann keppti í -66kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum. Hilmar vann silfurverðlaun í hnéybeygju er hann beygði 190kg. Hann reyndi við 200kg en það gekk því miður ekki upp.í Bekkpressu vann hann bronsverðlaaun með 130kg. Hann reyndi við 132,5kg sem hefði tryggt silfur en það gekk því miður ekki upp. Í réttstöðu byrjaði Hilmar í 210kg en lenti í því að fá tak í vinstri kálfa í byrjun lyftu og náði því ekki að lyfta. Hilmar reyndi aftur í annari tilraun en tókst ekki. Í þriðju tilraun haltraði Hilmar inn á keppnispallinn við mikil fagnaðarlæti og gerði hetjulega tilraun til þess að lyfta 210kg sem fór upp en náði því miður ekki að rétta úr öxlum til að klára og datt hann því úr keppni og fékk árangur sinn ekki gildan í samanlögðu.

Á laugardagsmorgun keppti Arna Ösp -69kg flokki kvenna.

Arna tók 142,5kg í hnéybeygju, 85kg í bekkpressu og 167,5kg í réttstöðu sem skilaði henni 4.sæti með 395kg í samanlögðu. Arna tók upp 147,5 kg í hnébeygju og 177,5 kg í réttstöðu en fékk lyfturnar dæmdar af sér vegna tæknigalla.

Þorbjörg keppti á sínu fyrsta stórmóti erlendis í +84kg flokki kvenna.
Þorbjörg vann til bronsverðlauna í hnébeygju er hún lyfti 175kg. Í Bekkpressu tók hún 85-90-95 sem var persónuleg bæting upp á 7,5kg. Í réttstöðu tók hún 170kg og endaði í 5.sæti í flokkinu með 440kg.

Eftir hádegi keppti Jón Dan, einnig á sínu fyrsta stórmóti erlendis.
Jón Dan endaði í 6.sæti í mjög sterkum -93kg flokki karla. Hann bætti sig um 17,5kg í hnéybeygju er hann lyfti 252,5kg. Í Bekkpressu bætti hann sig um 15kg er hann lyfti 165kg í annarri lyftu. Hann gerði tilraun við 170kg sem gekk því miður ekki upp. Í réttstöðu opnaði hann í 275kg og fór svo í 292,5kg sem hann náði því miður ekki að klára. Samanlagður árangur var 692,5kg sem er 42,5kg bæting á fyrri árangri og er víst að hann á enn nóg inni.

Næstur var Filipus Darri, sem var einnig að keppa á sínu fyrsta stórmóti erlendis.
Hann vann bronsverðlaun í hnébeygju er hann lyfti 275kg í annarri tilraun og reyndi síðan við 285kg sem fór örugglega upp en var því miður dæmd ógild sökum dýpt. Bekkpressan var mjög örugg með þrjár gildar lyftur: 155-165-167,5. Í réttstöðu lyfti Filipus 280kg í annarri tilraun sem var bæting upp á 2,5kg. Í síðustu lyftu fór hann síðan í 290kg sem fóru mjög örugglega upp og fékk 2 hvít en 1 rautt frá miðjudómara sem varð til þess að kviðdómur steig inn í og dæmdi lyftuna ógilda af óskiljanlegum ástæðum.

Alex Cambray keppti svo í búnaði á sunnudag í -93kg flokki karla og mætti segja að það hafi hreinlega allt gengið upp hjá honum í dag. Það voru 5 keppendur í flokknum og var Alex í 2.sæti í samanlögðum árangri fyrir mótið með 797,5kg. Hann var með markmið um að ná 820kg total sem eru A-lágmörk fyrir HM.
Alex vann gullverðlaun í hnébeygju og sló einnig vestur-evrópumet er hann lyfti 347,5kg, en það var 32,5kg persónuleg bæting.Í bekkpressu vann hann silfurverðlaun með 212,5kg sem er 15kg persónuleg bæting.
Það var mikil spenna í höllini fyrir réttsöðuna en Alex var þá í efsta sæti í flokknum og leit ekki út fyrir að aðrir keppendur myndu ná honum. Aðalatriðið var því að ná góðri og gildri opnun í réttstöðu til að innsigla total og metið. Alex opnaði örugglega 260kg sem gaf honum 820 í total og A-lágmörkin því komin í hús. Í annari tilraun fór hann í 277,5kg en gerði þau mistök að gleyma að læsa beltinu og tókst því ekki að rétta almennilega úr sér á pallinum. Hann fór því aftur í sömu þyngd í þriðju tilraun, læsti beltinu og lyfti 277,5kg við mikil fagnaðarlæti og fékk lyftuna gilda. Samanlagður árangur var því 837,5kg sem er nýtt íslandsmet og tryggði honum jafnframt gullverðlaun á mótinu með 47,5kg forskot á næsta manni. Alex vann einnig titilinn stigahæsti lyftari mótsins með 90,91 IPF stig.

Íslenska liðið mætti til Clermont-Ferrand fyrir mótið og var sótt á flugvöllinn af bílstjóranum Antonio sem átti eftir að verða hluti af íslenska liðinu meðan á mótinu stóð. Hann skutlaði liðinu á mótstað, út að borða, fylgdi liðsfólki á leiðarenda og talaði við alla sem þurfti. Hann lét opna eldhúsið á veitingastað fyrir þær Örnu og Þorbjörgu sem þurftu að fá næringarríkan kvöldmat daginn fyrir mót í fyrra fallinu svo þær kæmust snemma í háttinn. Maður með allt á hreinu.

Keppnishelgin endaði á lokahófi þar sem boðið var uppá veitingar og djamm. Okkar fólk sigraði að sjálfsögðu lokahófið enda ekki bara besta heldur líka skemmtilegasta liðið.

Við urðum vör við töluverða spennu fyrir Vesturevrópumótinu 2023 sem haldið verður í Njarðvík. Bæði keppendur og aðrir komu til okkar til að spjalla um mótið á næsta ári og lýstu yfir miklum áhuga á þátttöku og er mikil tilhlökkun í fólki að koma til Íslands á næsta ári.

Allir keppendur og fylgifiskar voru Kraftlyftingasambandinu og Íslandi til mikils sóma mótinu.