Skip to content

Viktor í 6. sæti á sínu fyrsta HM

  • by

Viktor og Grétar Skúli á HM 2016Viktor Samúelsson hefur lokið keppni á HM í kraftlyftingum. Þetta er í fyrsta sinn sem Viktor keppir á HM í opnum aldursflokki, en áður hefur hann keppt í drengja- og unglingaflokki með góðum árangri. Hann átti mjög sannfærandi innkomu í flokk fullorðinna, náði sjötta sæti með 1000 kg í samanlögðu ásamt því að slá Norðurlandamet í opnum flokki og fjögur Norðurlandamet unglinga að auki.

Mótið byrjaði, og endaði, vel hjá Viktori. Í hnébeygju bætti hann Íslandsmet Auðuns Jónssonar um 10 kg setti um leið Norðurlandamet unglinga með því að lyfta 375 kg í þriðju tilraun. Í bekkpressu tvíbætti Viktor Norðurlandametið í opnum flokki (og unglingaflokki) með því að lyfta 300 kg í fyrstu tilraun og 307,5 kg í þriðju tilraun eftir að hafa mistekist í annarri tilraun. Í réttstöðu tókst honum svo að lyfta 317,5 kg í annarri tilraun. Samanlagður árangur hans var því 1000 kg, sem er bæting á hans eigin Norðurlandameti í unglingaflokki og landaði honum sjötta sætinu í flokknum á eftir Tékkanum Tomas Sarik sem einnig tók 1000 kg, en sá var léttari að líkamsþyngd. Sigurvegarinn var Úkraínumaðurinn Oleksiy Bychkov, sem bætti heimsmetið með 1125 kg í samanlögðum árangri.

Bekkpressan telst einnig met unglinga í bekkpressu sem stakri grein og sló Viktor því samanlagt 5 Norðurlandamet, fjögur í unglingaflokki og eitt í opnum aldursflokki. Við óskum Viktori til hamingju með metin og frábæra innkomu á svið fullorðinna í kraftlyftingum!

Heildarúrslit